Friday, February 24, 2012

Vinnuvika íslenskra skólabarna


Ein sterkasta minning skólagöngu minnar eru haustin heima á Akureyri þegar maður gekk í skólann á fyrstu frostmorgnunum og hlustaði á brakið undir skónum og andaði að sér ísköldu og fersku haustloftinu.

Það komu tveir svona morgnar um daginn og æstu upp minninguna. Mikið var það gott.

En nú fer dimmi tíminn í hönd. Tíminn sem gerði menntaskólanum kleift að fylla í gatið á milli ljósglufanna. Það er eitthvað svo andstyggilegt við það að vakna í myrkri og fara til vinnu í myrkri. Eða það finnst mér. Einhverjum finnst það vafalaust sjarmerandi.

Snemma í morgun mættu foreldrar krakkanna okkar í unglingadeildinni í Norðlingaskóla. Við sýndum þeim hvað við erum að gera. Ég gat ekki betur séð en almenn ánægja ríkti með það sem við höfum í pípunum. Sjálfum fannst mér langmest gaman að við skyldum geta sagt þeim frá því að frá og með næstu helgi ráða nemendur því sjálfir hvort þeir mæti klukkan átta á morgnanna. Þeir sem vilja það frekar geta sofið aðeins lengur og mætt í skólann klukkan níu. Þeir eru þá bara klukkutíma lengur þann daginn.

Þetta var niðurstaða lýðræðislegst ferils sem m.a. fól í sér að fulltrúar nemenda lögðu sitt af mörkum. Í morgun var lokahaftið sprengt. Foreldrar innvinklaðir. Og svo er bara gó.

Svona finnst mér skólakerfið eigi að virka.

Næsta mál á dagskrá: Harry Potter smiðja. Við þurfum að gjöra svo vel (að kröfu námsnefndar nemenda) að umbreyta skólanum í Hogwarts og taka upp skólabúninga um tíma, flokka nemendur á vistir og taka upp kennslugreinar eins og varnir gegn myrkraöflunum og bruggun galdraseyða.
Það verður eitthvað.

Trúboð eða -fræðsla í grunnskólum



Ég tók mig til og las námskrána í kristnum fræðum áðan. Ég get ekki sagt annað en að mér hafi brugðið nokkuð rækilega. Ég er hræddur um að þar sé ekki hjálpað við að gera skýran greinarmun á trúboði og trúfræðslu. Þvert á móti virðist vera stundað reglulegt og markvisst trúboð í yngri bekkjum grunnskólans.

Það er, ef menn færu eftir námskránni. Sem fáir gera. Þrátt fyrir að námskrár hafi reglugerðargildi.

En skoðum dæmi.

Sex ára börn eiga að:


„...kynnast kristinni sköpunartrú og skoða sjálf sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar“
„...kynnast frásögunum af fæðingu Jesú, læra einfalda jólasálma og kynnast íslenskum jólasiðum“
„...kynnast afstöðu Jesú til barna, m.a. með frásögunni Jesús blessar börnin“
„....fái tækifæri til leikrænnar tjáningar á atburðum úr biblíusögunum“
„...heimsæki kirkju og skoði helstu kirkjumuni“
„...geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja Faðir vor og aðrar valdar bænir“

Ári seinna eru þau orðin nógu þroskuð til að:

„...skoða og ræða listaverk sem túlka efni Biblíunnar og fá tækifæri til eigin listsköpunar“

Ári eftir það er tímabært að þau:

„...viti hvað kristniboð er og kynnist starfi íslenskra kristniboða erlendis“

Níu ára börn skulu:

„...auka þekkingu sína á dauða og upprisu Jesú, t.d. með kynnum af frásögum af yfirheyrslunum yfir Jesú og dauðadómnum, sögunni af ferð kvennanna að gröfinni á páskadagsmorgni og þekki frásöguna af því þegar Jesús birtist lærisveinum sínum við Tíberíasvatnið eftir upprisuna“

Auka „þekkingu“ sína á upprisu Jesú!?

Þau skulu líka:

„...heimsækja kirkju og þekkja nokkur trúarleg tákn og merkingu þeirra, kunna skil á guðsþjónustunni og helstu kirkjulegum athöfnum, svo sem skírn, fermingu, hjónavígslu og útför“

Og tíu ára börnin eiga að:

„...öðlast skilning á ástæðunum fyrir kristniboðs- og hjálparstarfi kristinnar kirkju og þekkja til einstaklinga sem unnið hafa að þvi“
„...fá vitneskju um hugtakið heilagur og mismunandi merkingar þess og temji sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt“

Ég get ekki með nokkru móti séð að heimsókn Gídeón-manna stangist á við reglur aðalnámskrár. Þvert á móti eru þær í fullu samræmi við þær.

Og ganga raunar stutt.

Ég er ekki viss um að allir myndu hrópa húrra ef kristnir söfnuðir færu nú að krefjast þess að kristin fræði séu kennd nákvæmlega eins og reglur kveða á um.



Gallinn við símat


Líklega er fátt heimskulegra en stór lokapróf. Það, að þau hafa verið næstum einráð í menntakerfinu, hefur spillt mörgum af þeim sem hefðu getað orðið bestu námsmennirnir. Innbyggt er í þau að vel gefnir einstaklingar geta með nokkuð auðveldum hætti náð hlutfallslega góðum árangri með herfilegri tímanýtingu. Þau ýta ennfremur undir skorpuhugsun.

Á móti þessu er stefnt símati. Þá er frammistaðan metin jafnt og þétt, oftast þannig að efnið er bitað niður í sneiðar sem nemandinn gerir skil hverri á eftir annarri. Símat er enn nokkuð gildishlaðið hugtak – á jákvæðan hátt. Svona eins og „eineltisáætlun“ eða „sjálfsmat“.

En símat býr yfir innbyggðum göllum líka.

Ef við hugsum um það hvernig þeir vinna sem ná raunverulegum og skapandi árangri – þá er það með því að temja sér ákveðin vinnubrögð. Því fer fjarri að fólki fari vel að vinna jafnt og þétt eða gefa sífelld stöðurapport. Stundum þarf einfaldlega að hægja ferðina, hugsa, jafnvel byrja upp á nýtt frá öðru horni. Mistök eru gríðarlega mikilvæg öllu námi. Mistök eru einmitt ekki eitthvað slæmt – heldur óumflýjanlegur veruleiki þess sem reynir eitthvað á sjálfan sig og skapar. Fer út fyrir mengi þess sem liggur fyrir.

Símat vinnur gegn sköpunargáfu því til þess að geta í sífellu skilað hámarksárangri í hverju skrefi verður göngulagið stíft og stirt. Menn reika ekki frá gefnum vegi og taka sér þann tíma sem þarf til að gera eitthvað verulega gott. Menn taka ekki sénsa. Hvíla sig ekki.

Miklu betra er að hafa tvöfalt matskerfi. Annarsvegar mat sem er fyrir nemandann sjálfan. Einhverskonar aflraunasteina sem nemandinn getur reynt sig við – án ábyrgðar og að eigin frumkvæði. Og hinsvegar „verkefnamiðað“ mat sem er sveigjanlegt. Kennarinn getur þá tekið að sér hlutverk þess sem uppörvar og hjálpar til ef menn villast of mikið af leið – í stað þess að vera sá sem skráir allar miðsfellur eða einhverskonar mennsk stimpilklukka.

Shunzei (1114-1204) ferðaðist um og dæmdi ljóðagerð ungra manna. Hann gerbreytti hlutverki dómarans. Honum kom ekki annað til hugar en að láta nægja að benda á það sem vel væri gert – í stað þess að leita snöggra bletta. Vitandi sem er að önnur leiðin er margfalt líklegri til að skila betri ljóðum í framtíðinni.

Námsmat mætti taka meira mið af því.

Svindl í HÍ


Því er slegið upp sem frétt í dag að smátölvuvæðing þjóðarinnar sé orðin að ógn við hlutverk HÍ sem afburðasíu. Þar geti nú slugsar sem nenna ekki að lesa fyllt símann sinn af fróðleik og síðan brugðið sér á salernið og fundið svör við því sem þeir muna ekki. Þannig skapi þessir svindlarar sér forskot á hina sem leggja það á sig að muna allt.



Ég ætla svosem ekki að gera lítið úr góðu minni. Gott minni er gulli betra. En það er fráleitt að Háskólar eigi að flokka fólk eftir minni eða að samfélagslegar vegtyllur eigi að veitast þeim sem mest muna.

Því þótt minni sé ágætt – þá er svo margt annað sem skiptir miklu meira máli. Eftir nokkur ár í starfi munu þessir lögfræðingar og læknar vera búnir að átta sig á því að megnið af starfi þeirra snýst um að framkvæma sömu handtökin og þá sjaldan að þeim mætir eitthvað nýtt – fletta þeir því upp.

Það væri nær að prófa nemendur í háskólum í því hvort þeir geti einmitt komið gögnum sínum þannig fyrir að þeir séu fljótir að sækja sér upplýsingarnar sem á þarf að halda – en séu um leið hugmyndaríkir, frjóir og skapandi. Það ætti að hvetja læknanema og laganema til að koma með eins mikið af gögnum og þeir kjósa í próf. Henda svo í þá verkefnum sem reyna á ályktunarhæfni, skilning og frumleika. Það má svosem athuga hvort fyrirframmótuð svör eru á vísum stað líka.

Háskólinn í dag er svona doldið eins og maður ímyndar sér ástandið í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn seint á síðustu öld – þegar safnið var fullt af undarlegum sérvitringum sem þekktu það betur en nokkrir aðrir. Það tók áratugi að uppgötva að einn starfsmaður safnsins, Frede Møller-Kristensen, hafði um árabil stolið verðmætum bókum. Honum tókst það vegna þess að þessi gríaðrlegu andlegu og veraldlegu verðmæti sem bókasafnið var voru falin nokkrum undarlegum og stálminnugum einstaklingum til varðveislu. Tæknin var ekki tekin í þjónustu safnsins. Einstaka menn vissu hvað var geymt hvar og hvar það væri ef það hefði verið fært til.



Mannskepnan hefur ekki einu sinni skýra hugmynd um fjölda ef hann fer mikið yfir fjóra. Við vitum ekki hvar nokkrir enda og margir byrja. Þróunarlega var engin þörf á því að þekkja fjölda stjarnanna á himnunum, eyjanna í Breiðafirði eða laxanna í ánum.

En þar sem mannsheilann skortir upp á höfum við lært að nýta okkru tæknina. Og við látum hana um að geyma fyrir okkur upplýsingar. Í dag má koma nákvæmri eftirmynd Konunglega bókasafnsins fyrir í hlut sem er minni en sígarettupakki. Og það er hægt að láta hlutinn leita í sjálfum sér og finna nákvæmlega það sem maður vill finna – auk alls hins sem maður hafði ekki hugmynd um að væri til.

Laganemar í prófi ættu að vera prófaðir í frumlegri og lipurri hugsun, hæfninni til að finna aftur það sem þeir settu í geymslu og frjósemi hugans. Það ætti að prófa þá með því að láta þá semja lausn á Icesave-deilunni, finna leiðir til að sætta sjónarmið í deilum um vændi, greina orsakir og afleiðingar. Það sem á að hætta að gera er að láta þá leggja á minnið langa lagakafla og staðreyndatengsl sem eru höggvin í stein af kennurunum þeirra.


Læknanemar ættu að vera prófaðir í samskonar hlutum. Og við eigum að hætta að fylla lækna- og lagastéttina af einsleitum hópi fólks sem lætur toga sig í námið á fordildinni einni saman. Einhverri óljósri hugmynd um eigið ágæti og yfirburði.

Þá sjaldan ég fer til læknis með mig eða mína getur hann sjaldan sagt mér annað en það sem ég var sjálfur búinn að finna út með gúgli. Bráðalæknir, sem vissulega hefur ekki alltaf tíma til að fletta upp hlutum, vinnur meira og minna út frá verkferlum og vinnubrögðum sem eru þjálfuð upp – líkt og hjá bifvélavirkja eða logsuðumanni.

Læknar yrðu að miklu meira gagni ef þeir fengju meiri þjálfun og kennslu í að díla við flóknustu breytuna í þeirra starfi: vilja fólksins sem þeir vinna með.  Læknar þurfa að geta skilið fólk, borið virðingu fyrir fólki og hvatt það. Í stað þess að vera ópersónulegir iðnaðarmenn – eins og þeim hættir til að vera.

Sérfræðingaræðið er deyjandi sort. Og það má vel draga leyfar þess út á ísinn og láta það sigla sinn sjó. Logfræðingar, læknar og kennarar (já, guð minn góður hvað kennarar eiga vel heima í þessari upptalningu) þurfa að hætta að skapa sér sérstöðu út frá því að skammta fólki upplýsingar eftir eigin geðþótta – og taka sér stöðu við hlið þess sem þeir vinna með og upplýsa, fræða og hvetja.


Ég sat í vikunni fund um niðurstöður stærstu rannsóknar á starfsháttum í grunnskólum sem gerð hefur verið. Þar kom í ljós að meirihluti kennara skipuleggur nám nemenda sinna út í æsar. Nemendur hafa sáralítil áhrif á það hvað þeir læra og hvenær. Eru jafnvel allir í sama námsefninu.

Tæknin er löngu búin að gera slíkar starfsaðferðir óþarfar. Og þegar hún sannar það, eins og með þessu svindi í HÍ – þá er rökrétta lausnin ekki sú að ráðast gegn tækninni – heldur leyfa henni að gera það sem henni var ætlað. Bera byrðarnar fyrir okkur svo við getum gert eitthvað gáfulegra við tímann.

Mismunun lista


Ég skrifaði einu sinni bloggpistil um það að ég vildi listamenn feiga. Sá pistill byggði á þeirri hugmynd að listir ætti að skilgreina sem eðlilegan þátt í lífi venjulegs fólks – og að allt starf ætti að litast af listum. Það væri hægt að vera listamaður á svo fjöldamörgum sviðum. Og það að útbúa girðingu utan um „réttnefnda“ listamenn hefði það m.a. í för með sér að listirnar væru teknar frá fólkinu.


Líf án listar er í mínum huga eins og líf án rökhugsunar. Það á meira skylt við frumstæð dýr en menn. Og er einstaklega óeftirsóknarvert. Listin opnar nýjar víddir og lyftir lífinu upp í annað og æðra veldi.

En listkennsla barna er að mínu viti í molum. Vanhugsuð og vond.

Tjáningarþörf barna og hæfni til listsköpunar er óumdeilanleg. Samt sem áður virðist sú hugsun ráðandi að listir séu einhverskonar munaður eða föndur. Þetta sést best á því að um leið og námsefni „þyngist“ og nemendahópurinn verður meira krefjandi er listsköpun kúplað út á ljóshraða. Listnám á unglingastigi er að stofni til metnaðarlaust í námskrá og framkvæmdin er jafnvel ömurlegri.


Sjáið t.d. formlega kennslu í tónmennt í grunnskólum Reykjavíkur. Menn hætta hreinlega að kenna hana þegar nemendur verða 13-14 ára. Ég held að ástæðurnar séu tvíþættar. Í fyrsta lagi er hugsanlega pínu erfiðara að stýra unglingunum til verka en aðalástæðan er líklega sú að menn telja mikilvægara að börnin læri dönsku, málfræði og þáttun.

Ef maður nú hugsar þetta ögn fyrir utan ramma þessa ömurlega veruleika og veltir fyrir sér hvort ánægja barna af tónlist og áhugi fylgi þessu myndriti. Er það virkilega svo að tónlistaráhugi dvíni þegar börn verði unglingar.

Svo sannarlega ekki. Ef það er eitthvað sem skilgreinir unglingsár betur en nokkuð annað þá er það tónlist. Hugsanlega á eftir bólum.



En þarna eru tónlistarskólar teknir við. Tónlistarskóli er yfirleitt einstaklingsmiðuð stofnun þeirra sem vilja kaupa sérstaka athygli fyrir barnið sitt. Af einhverjum ástæðum finnst mörgum tónlistarkennurum ægilega mikilvægt að menn stundi list sína í einrúmi – eða a.m.k. fáir saman. Sem ég held að sé að mestu leyti gamaldags þvæla. Það er ekkert við tónlist sem krefst þess að menn stundi hana einir á meðan menn geta lært stærðfræði í hóp.


Það er auðveldara að læra að spila einfalda hljóma á gítar eða píanó en að læra um hætti sagna. Og það er miklu mikilvægara líka. Auðvitað verða svo einhverjir konsertpíanistar eða stjórnendur – alveg eins og einstaka maður verður metsöluhöfundur eða málfræðingur. En við höfum voða lítið rými fyrir höfunda og málfræðinga ef almenningur er ekki læs. Hið sama ætti að vera jafn augljóst: það er til lítils að þjálfa upp tónlistarsnillinga ef almenningur fer á mis við tónlistarlegt uppeldi.

Það á ekki að gerast í dag að stór hluti barna á Íslandi fái lítið eða ekkert tónlistaruppeldi. Því fer órafjarri að tónlistarskólarnir sjái um það sem vantar upp á. Þar sem ástandið er best eru tvö af hverjum þremur börnum fyrir utan þá. En 24 af hverjum 25 börnum þar sem ástandið er verst.

Og þessi börn, sem þó fara í tónlistarskóla, upplifa sig mörg eins og homma á dörtíkvöldi á Pleijers. Það er troðið í þau tónlistarmálfræði þar til þau nenna þessu ekki lengur og langar til að verða paunkarar eða leggja hljóðfærið á hilluna. Tónlistarnám á Íslandi er enn einfaldlega of snobbað, of peningadrifið og of elítusinnað.


Ástandið er ekki endilega betra í öðrum listgreinum. Listgreinakennarar eru alltofoft alls engir kennarar – heldur listamenn sem geta ekki lifað af list sinni.

Og alltofmargir kennarar eru alveg lausir við að vera listamenn.

Þannig fellur listin milli þils og veggjar – engum til gagns, hunsuð, smáð og falin.

Og að þessu leyti liggur stóra ábyrgðin hjá okkur sem menntum börnin. Við þurfum markvisst að halda list að börnunum og við þufum að taka okkur verulega á. Það getur vel verið að það sé ekki til peningur til að borga listakennurum fyrir að taka einkatíma með hverjum einasta nemanda – en það hljóta líka að vera til listrænir kennarar sem eru ekki svo einhæfir.

Við þurfum að setja listina í öndvegi og gera hana að snörum þætti í hverri einustu námsgrein. Það ætti að vera útilokað að útskrifast úr grunnskóla öðruvísi en að hafa beinlínis verið ýtt ofan í hlaðborð listarinnar og hvattur til að nýta sér það sem þar er.

Nú er ég t.d. að kenna íslensku í áttunda bekk. Hvernig nokkrum manni dettur í hug að hægt sé að kenna þá grein án þess að leyfa nemendum að tjá sig listrænt er álíka fjarlægt mér og að mæta nýétinn á jólahlaðborð.

Þvert á móti á að hama listinni inn í hausinn á krökkunum þar til þau vita ekki hvar listin endar og íslenskan byrjar. Þau eiga að sitja uppi með þá tilfinningu að við höfum ótal leiðir til að rannsaka heiminn, hugsa um hann og tjá okkur. Og þau eiga ekki að raða sér í girðingar eftir því með hvaða hætti þau hyggjast hafa samskipti við heiminn í framtíðinni.

Hér eru dæmi um verkefni sem nemendur mínir hafa gert síðustu vikur. Þau hafa alltaf val um verkefni – og mín aðkoma er ævinlega hvatning. Ég neyði engan til að yrkja ljóð ef hann vill frekar rökræða. Ég leyfi honum þá að rökræða – en hvet hann til að reyna sig við ljóðlistina næst.

Hér er dæmi um japanska vöku eftir dreng í 8. bekk:


Litla, gula blóm
nú fellur regnið niður
og blómið stækkar.
Um engið gengur maður
heldur á fölnaðri rós.

Og ljósmynd eftir jafngamla stelpu:


Hæka eftir stelpu:

Tré er grænt laufum
lauf hrynja þegar haustar
rætur róta mold

Og ljóð eftir dreng um hugrekki sem varð til við að horfa á þessa mynd:





Sit ég stolltur 
á stöku bergi. 
Drýpur af dökkum 
bergsdranga. 

 Langa leið hef ég
 lagt að baki.


Þetta eru ósköp venjulegir krakkar. Nákvæmlega eins og hin fjögur þúsundin í árgangnum. Þetta eru alls ekki neinir yfirburðanámsmenn eða krakkar sem hafa sótt listaskóla á kostnað foreldra sinna. Þetta er bara það sem gerist þegar þú markar börnum völl til að skapa á. Af og til róta þau upp gulli. Og þegar þau gera það hefur líf þeirra breyst – sumra til frambúðar. Þau hafa uppgötvað að list er aðferð til að hafa samskipti við heiminn og að list veitir manni ánægju og gleði.

Á hverjum fimmtudegi skila 30 börn mér inn frjálsu sköpunarverkefni. Um kaffileytið, þegar þau koma heim til sín eru þau byrjuð að senda mér skilaboð eða pósta á feisbúkksíðuna okkar til að vera viss um að ég skoði verkefnið og gefi fídbakk.

Ég hrósa því sem vel er gert, hvet þar sem þarf að hvetja og reyni að viðhalda ánægju þeirra og sköpunargleði – vitandi það að það er margfalt mikilvægara að þessu börn skapi en að þau muni.

Um íslenskukennslu





Nú liggja í meltingarvegi „kennaraháskólans“ kennarar af fyrstu kynslóð nýrra og endurbættra kennara – sem hafa fimm ára nám að baki sér þegar þeir hefja störf. Eða þeir eiga að gera það. Orðið á kennarastofunni er að vandræðalega stór hluti þeirra sem lokið hafa þrem árum hyggist klára síðustu tvö árin í einhverju allt öðru – og ljúka meistaranámi (sem er skilyrði kennsluréttinda hér eftir) í einhverju ánægjulegra eða praktískara en þeir hafa nú eytt þremur árum í.

Það er svosem ekki undarlegt að við þessar aðstæður komi fram fagstéttir sem vilja nýta rýmið sem tvö auka ár gefa til að skara eld að sinni köku. Nú vilja til dæmis íslenskumenn að kennurum sé kennd meiri íslenska.

Ef ég væri valdameiri en ég er þá myndi ég gerbreyta kennaranáminu og taka upp a.m.k. heilt skólaár þar sem kennaranemar starfa við kennslu með stuðningi. Þeir fengju það sáralítið launað – og í staðinn fengju skólar sem taka á móti þeim að senda sitt fólk í endurmenntun og teymisvinnu inni í háskólanum. Fólkið með reynsluna færi eina og eina viku inn í háskólann og aflaði sér þekkingar á því sem þar er nýtt og skilaði þangað inn því sem er að gerast úti í skólunum. Og skólinn gæti hæglega sleppt mönnum til verkanna vegna þess að eyðan sem þeir skilja eftir sig yrði ríflega mönnuð með kennaranemum.

En ég er ekki valdameiri en svo að ég verð að láta nægja að básúna þetta hér. Og ég er allt of ungur og frjór og lífsglaður og hégómlítill til að dúndra mér í doktorsnám til þess eins að enda sem kennari í háskólanum. Það eru ömurleg örlög.

En að því sögðu þá held ég að það megi vissulega bæta íslenskukennslu. En mikið óskaplega vildi ég að íslenskir kennarar hefðu hugrekki til að rífa greinina upp úr þeim hjólförum að verða einna helst þeim að gagni sem vilja geta stafsett sæmilega rétt það sem þeir hafa eftir öðrum. Því hin stóra meinsemd íslenskukennslunnar er að það skortir upp á að gera nemendur færa um að skilja, skapa og tjá. Allt annað er hjóm.

Eina leiðin til að viðhalda tungumáli er stanslaus sköpun. Málið þarf að spretta upp úr sverðinum hvar sem litið er – og ákveðin órækt er ekki aðeins æskileg, heldur bráðnauðsynleg. Tungumál varðveitast ekki öðruvísi en með sífelldri lifun. Afskorin blóm sölna fyrr eða seinna.

Það er freistandi að enda þetta á tilvitnun í virðulega suðurþingeyska móðurmálskennara sem gátu varla á heilum sér tekið þegar kommúnistarnir í Reykjavík fóru að dæla úrkynjuðu skrípamálfari inn á íslensk heimili undir yfirskyni fagurbókmennta. Og ég ætla að láta eftir freistingunni.

Þeir skrifuðu að sjálfsögðu bréf til að kvarta en uppskáru ekkert nema skæting frá ungum þýðanda sem annaðhvort kunni ekki eða vildi ekki tala íslensku alminlega og eins og reglugerðir kváðu á um. Þeir skrifuðu því annað bréf og sögðu þar um ódáminn:

Framkoma hans í andsvörum í Tímariti Máls og menningar, – þar sem hann ræðst eins og dóni að kennurum, og viðurkennir í engu ávirðingar sínar – bendir til þess að honum sé annaðhvort ekki annt um móðurmál sitt, eða hann sé haldinn rithöfundarhroka, sem starblindi hann í sjálfs sín sökum.

Hvort heldur sem er, sýnir, að hann er viðsjárverður maður í íslenzkum bókmenntum.


Bölvað gerpið.

Og svo kunni hann ekki að skammast sín. Lét sér nægja að segja að enginn verði rithöfundur fyrr en hann sé vaxinn út úr þeirri hugmynd að til séu orðskrípi.

Og undir slíku gat virðulegt Kennarafélag S.–Þing. ekki setið. Það var enda ljóst að ef fleiri tækju upp þennan „orðskrípa- og sóðarithátt [...] væri okkar göfugu tungu geigvæn hætta búin.“

Svo fékk bara drulludelinn Nóbelinn.

Hve margir HKL ætli hafi verið kæfðir í fæðingu af íslenskukennurum þessa lands?

Svona á skóli að virka


Þann 1. maí síðastliðinn skrifaði ég (að mínu mati nokkuð gáfulega) grein hérna á Maurildin um gallana á samkeppnisþjóðfélaginu. Í lok textans strengdi ég heit: að ganga í lið með samkennurum mínum og reyna að gera vötnin umhverfis skólann okkar að kennslusvæði með því að taka báta í notkun.


Stundum er skólinn minn, Norðlingaskóli, besti skóli í heimi. Ég byrjaði á að tala við íþrótta- og útilífskennara og hann greip hugmyndina á lofti. Áður en ég vissi af var kominn nokkra manna kjarni sem vildi gjarnan gera þetta að veruleika. Auk þess tók skólinn í haust við frístundastarfinu og þar vann náungi sem var tengdur við Siglunes og ÍTR sem svo sannarlega vildi hjálpa okkur að gefa verkefninu vængi. Smátt og smátt fann maður hvernig hin mikla þekking og reynsla sem býr í borgarkefinu dróst saman í einn punkt og um daginn pöntuðum við flutningabíl og fengum báta lánaða til að kanna aðstæður. Allir starfsmenn skólans voru velkomnir með og nokkrir unglingar sem voru á leið heim eftir skóladaginn sáu hvað við vorum að gera og fengu að bætast í hópinn. Allt gerðist þetta áreynslu- og átakslaust. Það er einhvernveginn eðlilegasti hlutur í heimi að þeir sem svipað eru þenkjandi takist í hendur og láti hlutina gerast.



Og í rigningarsudda bárum við bátana niður að ánni við skólann og rérum niður í Elliðavatn.  Allsstaðar vorum við að leita að kennsluhugmyndum. Þegar við komum til baka höfðum við fengið ótal hugmyndir fyrir öll aldursstig. Allt frá öryggiskennslu fyrir yngstu börnin upp í kanóaferð út í eyju þar sem gist er yfir nótt og sagðar draugasögur.




Við klárum að skipuleggja þetta á þessari önn og vonandi verður vatnakennsla orðinn fastur þáttur í skólastarfinu strax á þeirri næstu.

Allt vegna þess að kerfið virkar sem heild og blæs vindi í segl þeirra sem sýna frumkvæði. Hvatinn kemur innanfrá.

Ef þetta tekst vel og siglingakennsla verður virkur þáttur í starfinu kemur ekki annað til grein af okkar hálfu en að galopna faðminn fyrir þeim skólum sem vilja koma og vera með. Við munum hafa þekkingu og kennsluefni aðgengilegt og ókeypis. Kennarar sem vilja brjótast út úr kennslubókinni og vera með þurfa ekki annað en að setja sig í samband við okkur.

Við erum öll í sama liði.


Þannig á skóli að virka.

Það sem við kennarar viljum ekki að þið vitið


Opinber skólastefna á Íslandi er sökkvandi skip. Menn eru hættir að dásama hana á tyllidögum. Meira að segja á Titanic struku menn fiðlustrengina þar til þeir urðu blautir á tánum. Á íslenska skólastefnuskipinu er þögn. Vandræðaleg þögn.



Það eru nokkrir mánuðir síðan ég fékk af því flugufregnir að ný, risastór rannsókn á starfsháttum í grunnskólum sýndi miður glæsilega niðurstöðu þegar kæmi að framkvæmd skólastefnunnar. Raunar væru niðurstöðurnar eiginlega ekkert annað en ömurlegar.

Um síðustu helgi, þar sem fyrstu niðurstöður voru kynntar var minn versti grunur staðfestur. Og þótt þetta væru bara fyrstu niðurstöður og enn eigi eftir að rannsaka miklu meira og rýna betur í bakgrunnsupplýsingar og breytur þá blasti við okkur öllum sem mættum á ráðstefnuna hinn ægilegi sannleikur.

Íslenskir kennarar eru búnir að gefast upp á hinni opinberu skólastefnu og hafa ekki lengur áhuga á að framfylgja henni.

Hin opinbera skólastefna felst í því að hvert barn, óháð því hvar það situr á hinum og þessum  normalkúrfum, eigi rétt á því að fá nám við hæfi og tilheyra samfélagi með öðrum börnum á svipuðu reki. Það sé með öðrum orðum liðin tíð að stærsti sameiginlegi nefnarinn ráði för í skólakerfinu, allt sé miðað við hann. Og að frávikum sé raðaða saman eftir sérkennum í lokuðum hólfum.

Skóli án aðgreiningar er ekki ný hugmynd. Henni er stefnt gegn þeirri hómópatísku gervivísindahugmynd að líkt lækni líkt. Þeirri hugsunarvillu að best sé að flokka fólk eftir sameiginlegum, yfirborðskenndum eiginleikum. Hún felst í þeirri hugsjón að samfélagið skuli tilheyra okkur öllum – þótt við séum ólík.



Í stuttu máli virðist opinbera skólastefnan Skóli án aðgreiningar aðeins hafa skilað vélrænu afgreiðslukerfi fyrir börn, og sérkerfi fyrir þau sem valda kerfisvanda. Ráðist var að „rót“ vanda þeirra barna sem ekki náðu viðunandi árangri eða ekki voru til friðs með greiningar- og gátlistum. Sem gjarnan voru fullir af spurningum eins og þeirri hvort barnið ætti erfitt með að bíða eftir að röðin kæmi að því eða hvort það ætti erfitt með að sitja kyrrt.

Öll þau ár sem ég hef starfað sem kennari man ég aldrei eftir því að hafa fengið gátlista um þá kennsluhætti sem barninu var boðið upp á. Ég var aldrei spurður hvort gerð væri meiri eða minni krafa um kyrrsetur og þagnir. Aldrei var athugað hvort vinnuaðferðir væru hugsanlega einhæfar eða skólaumhverfið heftandi.

Og foreldrarnir sem dauðskömmuðust sín fyrir að hafa eignast „erfitt“ barn þorðu sjaldnast að efast um starfsaðferðir skólans eða spyrja um frammistöðu kennarans af ótta við að slík leiðindi væru talin til marks um arfgengan kvilla – sem nú gengi aftur í barninu.

Barnið fékk því lyf. Kennarinn fékk skýrslu. Skýrslan endaði á nokkrum hugmyndum um hvernig hægt væri að sinna „svona“ börnum. En svo hélt lífið áfram.

Ég kenndi einu sinni dreng sem var á slíkum lyfjum. Einu sinni þegar skólabróðir hans var að gista hjá honum sá hann hvar drengurinn þóttist kyngja töflunni en hrækti henni svo út úr sér. Sá sem varð vitni að þessu spurði hissa hvað hinn væri eiginlega að gera. Sá svaraði að hann væri að fara í hlaup í íþróttum og hann hlypi hægar þegar hann tæki lyfin. Sami drengur, komst ég síðar að, stundaði það að „taka sig af lyfjunum“ með þessum hætti þegar til stóð að fara í gönguferðir eða hjólatúra þar sem hann þurfti á allri sinni orku að halda.

Að hugsa sér. Þá daga sem skólinn veitti honum útrás fyrir hreyfiþörfina þurfti hann ekki lyf. Þvert á móti þvældust þau fyrir.

Hvað fyndist okkur um það ef góðu, bókelsku börnin sem alltaf standa sig vel væru sett á amfetamínskyld lyf vegna þess að þau eru svoddan gufur í leikfimi. Og leikfimikennarar og menntakerfið væri búið að fá sig fullsatt af því að það tæki barnið 3 mínútur að hlaupa 400 metrana.

Við myndum ekki einu sinni hugleiða slíkar lausnir. Vitandi það að það hvort barn fer 400 metra leið á 1 mínútu eða 3 er ekki grundvallaratriði í farsæld þess og framtíðarlífi.

KF NÖRD á góðri stundu


Það sem við sum höfum ekki áttað okkur á er að hið sama gildir líka um annað nám. Það skiptir ekki máli hvort barn er eitt ár eða þrjú að læra grunnatriði algebru.

Nema...

...við höfum hannað skólakerfi sem treystir á það að allir læri það sama á sama tíma. Þá fara hægfarabörnin að þvælast fyrir og þeim hraðskreiðu fer að leiðast.

Og...

...ein niðurstaða rannsóknar á skólastarfi bendir til þess að meirihluti allra barna á Íslandi sé enn undir lítt sveigjanlegu framkvæmdavaldi kennarans. Og að oftar en ekki mætir nemandinn í skólann til að láta mata sig í þrjátíu manna hópi þar sem einn kennari stendur í stafni og kennir öllum það sama á sama tíma – eða réttir börnum bækur og lætur þau kenna sér sjálf. Og öll fá þau meira og minna sömu bókina sem á að vera á sömu blaðsíðu.

Þið fyrirgefið, en þetta er svolítið eins og að vera enn að hlaupa með sendibréf á milli bæja í stórri sveit þótt það sé kominn sími.

Tæknin hefur fyrir löngu gert okkur kleift að einstaklingsmiða nám.

En jafnvel þar sem tæknin er ekki til staðar eru margar leiðir til að einstaklingsmiða nám.  Það eru margar leiðir til að búa til skóla án aðgreiningar.

Það eina sem ekki er hægt að gera er að ætla öllum að vera svotil eins. Það gengur ekki, hefur ekki gengið og mun ekki ganga.

Menn láta stundum eins og það sé eitthvað nýtilkomið að til séu „fráviksbörn“ og að í gamla daga hafi flest fólk getað svipaða hluti. Það sé bara tómt eftirlæti að ætla að breyta kerfinu til að rúma börn sem þurfi fyrst og fremst að læra að haga sér.

Þegar háskólar voru opnaðir konum fylgdi því undarleg aukaverkun. Í framhaldinu fæddust sífellt fleiri börn sem urðu einhverf. Á tímabili röktu menn þessa aukningu til bólusetninga. En raunin mun vera sú að ástæðan var eiginlega fyrst og fremst sú að afburðagreindir karlar voru farnir að ná sér í konur og eignast börn. Þessir sömu karlar höfðu öldum saman verið í hálfgerðum karlabúrum inni í háskólunum þar sem fáar konur sýndu þeim áhuga og þeirra eina kynferðislega dægradvöl var að fróa sér eða hommast. En hommar hafa lengi riðið röftum í háskólakerfinu – enda bendir ekkert til annars en að gáfað fólk hafi kynhvöt eins og annað fólk – þótt leiðir til útrásar (og þar með fjölgunar) hafi ekki alltaf staðið galopnar.




En sumsé. Gáfuðu konurnar fengu loks að fara í skóla til gáfuðu karlanna og þau eignuðust saman einhverf börn. Aukning einhverfu stafar að einhverju leyti af því að menntafólk er farið að fjölga sér (þetta sama fólk var líklegra til að láta bólusetja börnin sín og þaðan mun misskilningurinn um tengsl bóluefna og einhverfu hafa sprottið).

Þessi tengsl milli afburðagreindar og einhverfu hafa varpað upp áhugaverðum spurningum á borð við þær hvort mælikvarði á greind hafi verið of þröngt strikaður. Hvort það sem álitið hafi verið yfirburðir hafi aðeins verið það á mjög þröngu og afmörkuðu sviði en jafnframt verið einkenni sérvisku eða jafnvel meingallaðrar persónugerðar. Að það sem talið var kostur – reyndist vera galli þegar kerfinu var breytt.

Hefðu menn haldið sig við skrifleg próf og rökfærsluritgerðir hefði aldrei reynt á gallann. Hefðu konur áfram verið kúgaðar og haldið skipulega frá námi kynni gallinn heldur aldrei að hafa uppgötvast. En það var aðeins innan þessa verndaða og ómanneskjulega umhverfis háskólalífsins sem gallinn var ósýnilegur.

Og mig grunar ansi sterklega að mörg af þeim börnum sem á Íslandi teljast „gölluð“ séu á sama hátt aðeins gölluð þegar þau eru skoðuð innan þess þrönga ramma sem skólasamfélagið setur þeim. Að þótt gallinn sé berlega ljós þegar börnin megna ekki að sitja kyrr og snúa að töflunni tímunum saman eða þegja þá sé mun auðveldara að breyta kerfinu en börnunum.

Því á sama hátt og konur áttu fullt erindi í háskóla – þá eiga öll börn (að mínu mati) erindi í grunnskóla.

Og þau eiga erindi í venjulegan grunnskóla. Ekki einhvern sérhannaðan til að aðstoða „erfið börn.“

Það á síðan að vera verkefni starfsfólksins í skólanum að sjá til þess að skólinn geri sitt besta til að laga sig að hverju barni. Það getur verið strembið verk. En það er hægt. Þó ekki án þess að hugsað sé út fyrir þann kassa sem skólaborðið er og kennslustofan.

Og starfsfólkið í skólunum þarf að standa í öndvegi í baráttu fyrir þessi börn og krefjast þess að þannig sé búið að þeim að þau þrífist innan skólans eins og önnur börn. Og starfsfólkinu þarf að þykja vænt um þau eins og önnur börn og finnast mikilvægt að skólinn sinni þeim og þau fái að vera þátttakendur í skólasamfélaginu.

En þannig er það ekki.

Áralöng vanræksla á þessu verkefni hefur orðið til þess að kennararnir hafa misst trúna. Þeir eru við það að gefast upp. Og það sem verst er, þeim finnst ekki einu sinni mikilvægt að reyna. Það er bara vesen. Þetta er ekki til neins.


Helmingur kennara er áhugalaus eða á móti því að skólinn sé opinn öllum börnum. 

Þessi helmingur sem búinn er að gefast upp vill börnunum áreiðanlega ekkert illt. Hann telur einfaldlega ekki mikilvægt að framfylgja opinberri skólastefnu.

Og þegar annar hver kennari telur verkefnið ekki mikilvægt þá er hreinlega útilokað að það takist.

Við kennarar erum oft furðu hörundsárir. Það má ekki tala illa um okkur. Við verðum alveg brjáluð. Við teljum okkur gera fjandakornið nóg fyrir þessi lélegu laun.

En við þurfum að horfast í augu við það að þetta er ekki boðlegt. Það er ömurlegt að fagstétt skuli ekki hafa meiri metnað eða hugmyndafræðilega sýn en svo að það sé bara ókei að finnast það ekki mikilvægt að barn fái að fara í skólann sinn.

Þetta er skandall. Stór skandall. Og kennarar geta ekki vísað á aðra og kennt þeim um þessa niðurstöðu. 

Það er örugglega rétt að kennarinn treysti sér illa til að framfylgja stefnunni við þær aðstæður sem skapaðar eru. Það er örugglega líka rétt að einstakir kennarar upplifa sig vanmáttuga gegn slælegri alhliða framkvæmd hugmyndafræðinnar. 

Hvað ef helmingur lækna lýsti því yfir að það væri ekki mikilvægt að fólk fengi læknishjálp í heimabyggð? Myndi fólk áfellast Heilbrigðisráðherrann eða Fjárlaganefnd? Nei. Við myndum móðgast og tala um vanhæfa og áhugalausa lækna. 

En af hverju erum við ekki að tala um þetta? Af hverju erum við kennarar ekki að segja eitthvað? Gera eitthvað? Skoða hverju megi breyta?

Hversu lengi ætlum við að totta dúsur sem innihalda ekkert nema hálftuggnar afsakanir og hálfvelgjur? 

Það er kreppa í skólakerfinu og hún snýst ekki bara um peninga. Og hún verður ekki bara leyst með peningum.

Það sem fyrst og fremst kreppir er kerfi sem viðheldur vanda í stað þess að leysa hann.

Er upplýsingatækni leiðin út úr ógöngunum?


Í síðasta pistli benti ég á að helmingur kennara hefur trú eða áhuga á menntastefnu landsins. Þeirri að skólinn skuli standa öllum börnum opinn.

Það kemur fyrst og fremst til af því að innleiðing hugarfars- og starfsháttabreytinga hefur verið ömurleg. Hafa þar allir staðið í vegi hver fyrir öðrum.

Raunin er sú að við erum enn að stærstu leyti að reka menntakerfi 19. aldarinnar. Stórir hópar af börnum sitja í litlum rýmum og snúa allir í átt að töflu – og einn kennari reynir að kenna þeim mola úr þekkingarforða mannkyns.

Einu sinni þegar ég tók við bekk þá gaf ég vinnuálag frjálst í sex vikur. Allir nemendur höfðu aðgang að sömu verkefnunum og réðu hvort þeir unnu þau og hve mörg. Í upphafi tóku allir stórt próf úr öllu efninu og hið sama gerðist að sex vikum liðnum. Hér má sjá tengsl ástundunar og árangurs.



Af þessu má glögglega sjá ákveðna tilhneigingu í þá átt að vinnusemi hefur áhrif á árangur. Það mótar fyrir línu horn í horn á myndinni. En það er ekki fullkomin fylgni.

Hæstu nemendurnir skiptast gróflega í tvo jafn stóra flokka.  Þá sem lögðu mikið á sig og þá sem lögðu lítið sem ekkert á sig. 

Þegar ég greindi muninn á þessum flokkum sá ég að í neðri flokknum voru fleiri strákar en stelpur. Og að auki kom í ljós að þegar þeir tóku stór próf með nokkru millibili þá voru framfarir þeirra mælanlega minni. Smátt og smátt fer nefnilega að skilja á milli þessara hópa – og það er skýringin á lélegri árangri drengja í skóla en stúlkna. Námsgetan er fyllilega sú sama en metnaðurinn og iðnin er minni. Lengi vel hanga drengirnir í skottinu á stelpunum með því að reiða sig á sjálfstraust og sjálfstæði en smátt og smátt hættir það að duga til.

Á myndinni sjást líka áberandi tveir einstaklingar sem uppskera ekki í hlutfalli við það sem þeir sá. Þeir svífa langt yfir öðrum með sambærilegan árangur. Skoðun leiddi í ljós að þarna var ástæða til að  skoða hvort um væri að ræða lesblindu eða aðra röskun.

Eins má sjá að á myndinni eru fjórir einstaklingar sem líklega eru búnir að gefast upp fyrir þessu fagi.

Loks sést hvernig meðaljóninn raðar sér um miðbikið.

Sex vikum eftir að ég tók við þessum bekk var ég semsagt búinn að greina eftirfarandi: Samband milli ástundunar og árangurs, uppgjöf, námsröskun, metnaðarleysi og í raun töluvert margt fleira sem ég dundaði mér við að lesa úr þessari mynd. Ég gat í framhaldinu leyft mér að undirbúa viðbragðsáætlun vegna þeirra hópa sem skáru sig úr. Ég gat reynt að glæða hópinn sem búinn var að gefast upp eða var of „kokkí“ til að leggja sig fram. Ég gat talað við umsjónarkennara þeirra sem ekki uppskáru þrátt fyrir vinnu. Við skoðuðum fyrst námstækni og vinnubrögð – og þegar við sáum að þau voru mjög góð tókum við eftir því að skýr einkenni um lesblindu voru til staðar. Raunar hafði umsjónarkennarinn í öðru tilfellinu þegar tekið eftir því og rætt við foreldrana – sem voru himinlifandi því þeir höfðu sjálfir haft grun um það en verið sannfærð af fyrri kennara um að ekkert væri athugavert.

Fyrsta skref mitt til að stuða þá sem lágu við botninn í vinnusemi í gang var að nemendur fengu ekki hefðbunda einkunn úr prófunum. Þeir fengu framfaratölu. 



Námsmatið, sem var símat sem ekki var beinreiknað inn í einkunn heldur einskært stöðumat, sýndi nemandanum framfarir hans á tímabilinu og árangur í öðrum verkefnum. Þá var vinnusemi hans skoðuð miðað við hópinn (þ.e. hvort hann væri að leggja á sig meira eða minna en aðrir).



Loks gat ég látið nemandann fá mynd af stöðu sinni í einstökum efnisþáttum. Þá stöðu notaði hann síðan til að áforma á sig verkefni í faginu næstu sex vikur þar til hann tók enn einu sinni próf úr öllu efni árgangsins.


Þetta er einstaklingsmiðað nám. Munurinn á þessu og hinu hefðbundna námi er að þótt undirbúningstíminn fari í að semja efni handa meðalnemandanum fer tími  kennarans eftir það í að sinna þeim sem skera sig frá fjöldanum í meira mæli. Til dæmis þurfti að brúa bilið upp í námsefni árgangsins fyrir ofan hjá þeim sem ítrekað sýndu fram á færni í ákveðnum flokkum. Í þessu tilfelli gerði ég það þannig að nemandi sem var yfir 80% í tilteknum flokki tvö próf í röð fór í munnlegt próf þar sem ég mældi þekkingu hans og að því loknu (ef árangur var raunverulegur) valdi nemandinn efni úr efri flokki til að vinna í.

Punkturinn er að þetta námsmat hefði aldrei verið mögulegt nema vegna þess að ég nýtti mér upplýsingatækni við kennsluna. Eftir að ég hafði hannað forsendurnar og samið verkefni, innlagnir og próf og gert aðgengilegar sem myndbönd og efni á vef þá óðu nemendur í efnið eftir eigin höfði og áhuga. Námsmatið var líka rafrænt og ég þurfti ekki að sóa dýrmætum tíma mínum í að sitja með penna og reiknivél og fara yfir. Excel sá svo um að draga tölfræðina fram.

Ég eyddi að endingu minni tíma í námsmatið en ég hafði gert áður með gömlu aðferðinni. Því copy-paste og fill in fítusar eru undratæki.

Með notkun upplýsingatækni er hægt að útrýma 19. öldinni í kennslu og hefja þá 21. Og ég hlusta ekki á þá sem kvarta yfir lélegum búnaði. Það er vissulega vandamál að búnaður í skólum er slappur. Nemendur okkar vinna t.d. á fimm ára gamlar fartölvur. En raunin var sú að meirihluti nemenda kaus að vinna mikið af þessu í heimanámi – enda eru svo til allir nemendur með aðgang að tækninni þar. Það að skólinn sé tímahylki er ekki ástæða til að kenna börnum eins og það sé ennþá árið 2005. 

Ekki það – að við þurfum að rífa tæknina inn í nýja öld líka. Og augljósa skrefið er spjaldtölvutækni.

Og í dag stöndum við á brún þess að stökkva inn í tækniöldina. Við í Norðlingaskóla erum að fara að hefja stórkostlega spennandi samstarf við fjölmarga aðila og saman ætla þessir aðilar að stíga skrefið. Ekki eftir ár eða tvö ár. Heldur strax eftir jól. Nánar um það aðeins síðar.




Það eina sem ég óttast er að hugarfarið uppfærist ekki um leið. Því ný tæki í höndum þeirra sem hafa stirðnaða huga gerir ekkert gagn. Það er búið að sólunda hundruðum milljóna í tækjakaup í menntakerfinu sem leiddu ekki af sér neina markverða breytingu á starfsháttum.

Það sem upplýsingatæknibyltingin á að leiða af sér í menntakerfinu er að í stað þess að bráðgerir drengir drabbist niður í metnaðarleysi og hægfara nemendur stöðvist alveg á meðan kennarinn matar alla á sömu máltíðinni – sem aðeins hentar miðjumoðinu – þá fái hver nám við hæfi, eftir sínum áhuga, styrkleikum og metnaði. Við getum aflagt pappír, og þar með skólaborðið. Nemendur geta verið á ferð og flugi um skólann sinn og umhverfið. Þeir geta unnið einir, þvert á árganga eða í litlum og stórum hópum. Og sá tími sem losnar fyrir kennarann, hann má nota í markvisst mat á skólastarfinu, hugmyndasköpun og samvinnu við aðra kennara – auk þess að kennarinn getur verið hvetjandi og stýrt umræðum og listsköpun.

Við erum dálítið að uppgötva að það eru fleiri en einn gír á bílnum okkar. Fóturinn er kominn á kúplinguna – og nú verður gaman að lifa.

Vogaskóli og kyndlarnir


Það berast ánægjulegar fréttir af Vogaskóla. Þessi frétt staðfestir það sem ég var búinn að heyra að þar á bæ ætla menn að gera tilraun með að leysa hefðbundnar kennslubækur af hólmi með kyndli. Ekkert nema gott um það að segja og gaman að það skuli vera lífsmark í skólakerfinu. Og það er fleira gott í gangi í Vogaskóla í nýtingu stafrænnar tækni sem við hin megum læra af.



Ég hnaut þó um orðalag í fréttinni sem stuðaði mig dálítið. Það bendir í sjálfu sér ekkert til þess að það sé endilega lýsing á viðhorfum fólks innan Vogaskóla – það getur allt eins verið að blaðamaður hafi sjálfur túlkað hlutina þannig eða þetta komið fram í óformlegu spjalli. En sjáið þetta:

Kindle varð fyrir valinu þar sem spjaldtölvan er einföld, handhæg og hentar eingöngu til lestrar, svo nemendur geta ekki laumað sér á Fésbókina eða leikjasíður. Verkefnið er unnið í samvinnu við Námsgagnastofnun og Skólavefinn. 

Hér er búið að taka augljósan ókost á tækinu (kyndillinn er því miður verulega takmarkað tæki) og snúa því upp í kost þar sem það takmarki möguleika nemenda á að „lauma sér“ á leikjasíður eða feisbúkk. Og í þessari málsgrein kristallast dálítið gallinn við notkun upplýsingatækni í skólum.

Í fyrsta lagi er það stórkostlegur misskilningur ef menn halda að skólarnir geti mikið lengur komið í veg fyrir að nemendur „laumist“ inn á aðlaðandi efni á netinu. Annar hver nemandi er kominn með snjallsíma, Android eða iOS, og óformleg rannsókn mín bendir til þess að eftir jólagjafaæðið séu þeir orðnir verulega fáir nemendurnir (á unglingastigi) sem ekki eru komnir með „tölvu“ í vasann sem hæglega má nota til að spila leiki á, fara á feisbúkk og gera það sem hugann lystir.

Skólinn er algjörlega á villigötum ef hann ætlar að halda áfram að taka að sér það hlutverk að skammta börnum rafrænt efni og skera það við nögl. Nú þegar eru allir þessir símar troðfullir af leikjum sem börnin geta „laumast“ í hvað sem skólinn vill. Og hugtakið „leikjasíða“ er deyjandi. Unglingar eru að hætta að nota þær og nota í staðinn öpp. Sem fæst þurfa netsamband.

Í öðru lagi er algjörlega tilgangslaust að halda nemendum frá feisbúkk eða leikjum í námi. Leikir eru stórkostlega vannýtt leið til náms. Og ég fullyrði að næsta bylting í menntavísindum verður að hætta að streitast á móti tækninni og umfaðma hana. Það er leikur að læra. Það á að vera leikur að læra. Það þarf að frelsa nám undan leikleysinu og leyfa börnum að læra í leikjum. Leikir eru frabær leið til náms og við eigum að reyna að nýta okkur það í stað þess að standa á móti því. Það sama má segja um samskiptasíður eins og feisbúkk.

Unglingar eru ekkert öðruvísi fólk en fullorðnir að því leyti að þau þrífast í heimi upplýsingatækni. Ef feisbúkk og leikir eru veruleiki þeirra fullorðnu þá er bæði heimskulegt og ábyrgðarlaust að reyna að svipta unglinga þeim veruleika. Þau þurfa að læra að nota hann.

Vandamálið er ekki unglingarnir og það að þeir „laumist“ eitt eða neitt. Vandamálið er löngu úrelt og steinrunnin kennslutækni og viðhorf. Skólakerfið hefur hunsað upplýsingatæknina. Sem er álíka gáfulegt og að hunsa blýantinn. Vandamálið er líka þetta fangavarðaviðhorf til unglinga. Kennarinn á að halda nemendum sínum á flugi, ekki á jörðinni.

.

10 merki þess að það er kominn tími á...


Hér að neðan eru helstu merki þess að það sé kominn tími fyrir þig til að stíga inn í upplýsingaöld í starfi þínu sem kennari.

1. Þú eyðir tíma þínum í búa til/fara handvirkt yfir verkefni sem hafa aðeins eitt rétt svar við hverri spurningu.
2. Þú notar vasareikni til að finna einkunnir.
3. Þú stýrir oftar en ekki því hvað nemendur fást við í tímum, jafnvel niður í blaðsíðutöl og efnisgreinar.
4. Þú notar túpusjónvarp eða geislaspilara í vinnunni.
5. Þú lætur kennslubækur stýra kennslunni. Og þar sem þær duga ekki til notar þú ljósrit.
6. Þú lætur nemendur vinna í tölvustofum.
7. Þú ert oft að endurtaka sömu hlutina.
8. Þú hefur ekki yfirsýn yfir einstök verkefni eða verkefnaþætti, veist t.a.m. sjaldnast hve hátt hlutfall nemenda svarar hverri spurningu rétt.
9. Þú skiptir námshópnum meðvitað eða ómeðvitað í hraðfara, hægfara og aðra.
10. Þú veist að þú heldur aftur af sumum, ýtir á eftir öðrum og sinnir fáum eins og þú vilt.

Allt er þetta til marks um ákveðinn vanda, tímasóun og tregðu.  Upplýsingatækni býður ótal leiðir framhjá þessum vanda – og þú getur sinnt starfinu betur, nýtt tímann betur og boðið nemendum upp á betra nám.

Á næstunni mun ég taka dæmi um einfalda notkun tækni til að díla við hvert af þessum vandamálum.

Upplýsingatækni kennarans 5: Fámennir skólar




Innleiðing upplýsingatækni verður líklega hvergi að meira gagni en á landsbyggðinni. Þar eru fjölmargir fámennir skólar sem liðið hafa fyrir hægagang við innleiðingu tækninnar. Skólar með færri en 100 nemendur eiga í stöðugum mönnunarvanda. Það er illt að treysta á það að í slíkan skóla fáist kennarar með faglegan og fræðilegan bakgrunn til að kenna allar greinar með viðunandi hætti. Hingað til hefur verið litið á fámenna skóla sem vandamál. Og skólar hafa verið lagðir niður og börn eru látin eyða allt að tíu klukkutímum á viku í bílum á leið í og úr skóla. Sameining skóla hefur oft haft í för með sér að sveitir verða menningarlega og félagslega fátækari á eftir.

Upplýsingatækni hefði getað komið í veg fyrir eitthvað af þeim atgervisflótta sem orðið hefur – og hún getur stöðvað þá óheillaþróun sem nú er í gangi. Fámennir skólar henta fullkomnlega fyrir innleiðingu upplýsingatækni og breytt vinnubrögð og hugsun.

Svo fremi að stjórnvöld sjái til þess að skólar og sveitir séu tengd inn á grunnnet upplýsingamiðlunar.

Möguleikarnir eru takmarkalitlir. Það er til þess að gera hagkvæmt að kaupa t.d. iPad eða fartölvu fyrir nemendur í fámennum skólum. Þar sem kennarinn er ekki lengur sá sem þarf að búa yfir þekkingarforðanum og stýra öllum athöfnum nemandans má tryggja mun fjölbreyttara og vandaðra nám en nú er hægt. Þar sem þegar er rætt um sameiningar mætti vel sameina yfirstjórnir skóla og hafa samráð. Einn dag í viku væri hægt að hafa smiðjudag þar sem nemendur í smærri skólum kæmu í stærri skóla og kæmust t.d. í íþróttahús, sundlaug, smíðastofu eða textílmennt. Þar sem nemendur þurfa nú að sækja skóla langar leiðir væri vel hægt að endurvekja gömlu sveitaskólana í samstarfi við eða sem útibú frá safnskólunum. Kennari í einum skóla gæti vel kennt nemendum í öðrum skóla gegnum netið.

Raunar eru litlir landsbyggðarskólar sá angi skólakerfisins sem iðnbyltingarskólakerfið hefur farið verst með en búa yfir mestum möguleikum fyrir skólaþróun á 21. öldinni. Það væri hægt að fækka kennurum töluvert, spara bækur og blöð, akstur og ýmislegt fleira. Í staðinn mætti tryggja nemendum frjálslegt námsumhverfi. Jafnvel henda burtu skólastofunni eins og hún leggur sig. Búa til persónulega, einstaklingsmiðaða vinnuaðstöðu. Nota peningana frekar til að færa börnunum það sem fámennið stendur í vegi fyrir. Í minnstu skólunum gæti það að fækka um einn starfsmann orðið til þess að skólinn gæti orðið hátæknivæddur á innan við ári. Eða að hægt væri að borga utanlandsferð fyrir eldri nemendurna á hverju ári þar sem þeir kynntu sér það sem þeir hafa lært.



Ef vel er á spöðunum haldið verður eftirsótt að vera hluti af fámennum skóla. Sem mun auðvelda skólastjórum að fá hæfasta fólkið og styrkja sveitirnar. Nám barna er stór þáttur í ákvarðanatöku foreldra um búsetu. Kringum skólana gæti jafnvel sprottið nýsköpunar- og nýjungunastarf. Fámennir skólar geta auk þess brúað bilið milli náms og náttúru, skóla og starfs með hætti sem aðrir ráða ekki við.

Það verða ekki stóru skólarnir sem brjóta sér leið undan oki iðnvæðingar. Þeir eru of svifaseinir, of stórir og flóknir. Þeir hafa „fjárfest“ of mikið í úreltri hugmynd um skóla. Það verða litlu skólarnir og nýju skólarnir. Og hugrökku skólarnir. Sérstaklega  skólarnir sem hvorteðer eru of litlir til að framleiða á sama hátt og stóru skólarnir gera. Upplýsingabyltingar eru aldrei tími stórfyrirtækja. Stórfyrirtækin horfa lömuð á meðan smærri fyrirtæki eiga sviðið (en geta svo sjálf orðið stór).




Til að þetta megi vera þarf, eins og áður sagði, grunnnet. En að auki þarf námsefni. Og samstarf. Það þarf að endurskoða kjarasamninga og vinnubrögð. Hugsa hluti upp á nýtt. Laga sig að nútímanum. Gera stundatöflur sem eru flæðandi og breytlegar yfir árið. Sinna ákveðnum þáttum öðruvísi en gert hefur verið.

Og við kennarar, námsefnishöfundar, Námsgagnastofnun, menntayfirvöld og aðrir þurfum að taka höndum saman og fóðra hvert annað á námsefni.

Ef einhver kennari les þetta sem telur að hann gæti nýtt sér það sem ég hef verið að gera í náttúrufræði (unglingastig) og íslensku (8.bekkur) þá getur hann sent mér línu. Allt mitt dót er öðrum opið. Ég skal glaður hjálpa til ef ég get. Ef einhver vill ráð um rafrænar kannanir, -innlagnir eða annað getur sá hinn sami sent mér línu. Ef einhver vill ráð um iPad og möguleika á nýtingu slíkra tækja skal ég leiðsegja og koma viðkomandi í samband við rétta fólkið. Ef ég get ekki hjálpað skal ég reyna að finna einhvern sem getur hjálpað.

Og eins, ef einhver sér tækifæri sem ég hef misst af, endilega látið mig vita.

Við þurfum að breyta þessu. Og það hratt.

Upplýsingatækni kennarans 4: forsendur og afleiðingar


Rétt notkun upplýsingatækni í kennslu skilar margvíslegum ávinningi. Kennslan verður fjölbreyttari og markvissari. Auðveldara er að leyfa nemendum að læra á eigin forsendum og hraða. Við getum frelsað okkur frá skólakerfi iðnbyltingarinnar.

Ég ætla nú að ræða um tvennt sem við getum talað um sem forsendur þess að tæknivæðing skólans geti orðið og mögulegar afleiðingar þess að hún takist vel.

Fyrst verður að nefna tæknihræðslu. Fjölmargir kennarar segjast einfaldlega vera hræddir við tæknina og fákunnandi þegar kemur að beitingu hennar. Og það þarf ekki að koma svo mjög á óvart þegar haft er í huga að kennarastéttin er gömul og illa endurnýjuð. Orðið „tæknihræðsla“ er einfaldlega yfirvarp yfir tæknifákunnáttu. Og í skólakerfi nútímans og framtíðarinnar er fákunnátta um tækni fötlun. Hlutverk kennarans er að undirbúa nemandann undir líf og starf í tæknivæddu samfélagi. Tæknifákunnáttan er aðeins ein tegund ólæsis – og ólæsir kennarar eru erfiður biti að kyngja.

En tækniþekking er ekki allt. Reyndur kennari sem enn er fastur á myndvarpastiginu er á alla máta betri kennari en reynslulaust tæknigúru. Tæknin hefur fyrst áhrif á umbúðirnar, síðan innihaldið. Innihald verður ekki til með flottum umbúðum.

Vandamálið hér – og eitt af grundvallarvandamálum skólakerfisins – er að kennarastarfið er á Íslandi meira í ætt við þjóðveldisöld en nútímann. Kennarar eru óeðlilega og óréttlætanlega einangraðir. Einn kennari, einn námshópur, ein kennslustund.


Af hverju ættu ekki allir að geta svarað í einu?

Lausnin er teymisvinna. Í stað þess að 4 kennarar sinni fjórum námshópum með 25 börnum geta fjórir kennarar sinnt einum 100 manna hópi. Sem síðan er hægt að skipta eftir hentugleikum og þvert á yfirborðskennda mælikvarða eins og almanaksár fæðingar. Þessir kennarar geta haft samráð um vinnuna sína og einn lagt til tækniþekkingu og annar innihald.

Aðeins með því að kennarar vinni saman verður hægt að nota upplýsingatækni af viti í skólum. Því eðli málsins samkvæmt býr mest þekking á innihaldinu hjá öðru fólki en hefur mesta þekkingu á umbúðunum. Og þegar svo er kemur einangrun því til leiðar að kennsla annars ónýtist vegna slaks innihalds – en hins vegna slakra umbúða.

Kennarar í upphafi tæknialdar verða að vinna saman. Öðru vísi er ekki hægt að hnika þessu skólakerfi áfram.

Þetta var fyrri forsendan. Sú síðari er traust og velvild.

Það segir sig sjálft að þegar þú færð nemanda tæki eins og snjallsíma, spjaldtölvu eða bara fartölvu þá lyftir þú möguleikum hans á að missa þráðinn upp í æðra veldi. Nemandi sem á bágt með að einbeita sér hlýtur að eiga erfitt með að standast freistinguna þegar honum er færð heil veröld til að leika sér að. Margir bregðast við þessu með því að setja eftirlitsbúnað í tölvur (t.d. til að skoða og stjórna tölvum nemenda meðan þeir vinna) eða með því að loka á aðgang að öllu nema því sem nemandinn á að vera að gera.



Mín reynsla er að hvorttveggja er óþarft. En til að svo sé þarf tvennt að koma til. Í fyrsta lagi verður að liggja fyrir raunhæf áætlun um vinnu nemandans sem skoðuð er mjög reglulega (vikulega eða oftar). Og í öðru lagi þarf staðblærinn að byggjast á trausti og velvild.

En ég má til með að nefna að slæm reynsla margra kennara af því að hleypa nemendum í tölvur held ég sé fyrst og fremst til komin af því að nemandinn er vanur að hafa sáralítið um nám sitt að segja. Hann ræður engu um hvert stefnt er og megnið af tímanum veit hann ekki einu sinni hvað hann er að læra eða hvað er handan við hornið. Það er ekki við því að búast að nemandi sem aldrei er með í ráðum um nám sitt rati þá leið sem kennarinn vill að hann fari sé leyst af honum ólin.

Það er ekkert við eðli málsins sem gerir það að verkum að valdaflutningur frá kennara til nemanda hafi slæmar afleiðingar í för með sér. Nemendur sem fá völd og er treyst til valda eru nákvæmlega eins og allt annað fólk í sömu stöðu. Stundum reka þeir sig á en oftar verður valdeflingin til þess að þeir njóta sín betur. Kennari þarf ekki annað en að koma fram við nemendur sína af vinsemd og virðingu til að nemendur sýni það sama til baka. Valdastríð milli nemenda og kennara eru vond stríð því kennarinn hefur allan liðsaukann og nemandinn situr uppi með allan stríðsskaðann. Fæstir nemendur batna við það að vera beittir hörðu eða vaktaðir eða agaðir til. Flestir nemendur sýna verulega framför við það að vera sýnd hlýja.

Ég hef séð hörðustu gelgjur breytast í yndislegasta fólk við jafn ómerkilegan hlut eins og að vera boðið með inn á kaffistofu kennara í kökusneið og mjólkurglas. Ég hef séð nemendur sem búið er að gefast upp á og afskrifa sem forherta krimma breytast í ljúflinga við það eitt að talað er við þá eins og menn. Ég hef aldrei séð neinn bættan með hörku eða eftirliti.



Harðstjórar eiga enn minna erindi í kennslu en tæknifatlaðir og ólæsir. Samt er enginn skortur af þeim. Og harðstjórn er oft mistekin fyrir hæfni.

Að því sögðu á kennarinn ekki að vera lufsa. Hann á ekki að láta vaða yfir sig. Og kennari sem sífellt er einn með sama hópnum á mjög erfitt með að viðhalda því jákvæða uppbyggilega andrúmslofti sem nauðsynlegt er til að hægt sé að fara að gera hlutina alminlega. Einangraður kennari er dálítið eins og þreytt, einstætt foreldri. Það er vissulega oft traust og sterk tengsl til staðar en stundum þarf maður breik. Kennarar þurfa að geta bakkað hverja aðra upp og samræmt störf sín þannig að þeir hafi væntumþykjuna og virðinguna í fyrirrúmi. Og kennari sem illa er upplagður eða brestur þrek til að díla við eitthvað á því augnabliki sem þarf getur þá tekið sér hvíld og aðrir hlaupið inn í staðinn. Nemandi sem þarf stuðning hefur um nokkra kennara að velja.

Meðan komið er vel fram við börn og þau efld til að ráða sem mestu sjálf og verk þeirra dæmd en ekki hver einasta mínúta hverrar einustu stundar – þá þarf ekki að hafa áhyggjur af flóttaleiðum inn í sýndarveruleika upplýsingatækninnar. Þvert á móti getur tæknin einmitt orðið til þess að nemandinn þarf sjaldnar að sóna út. Því sá sem maður missti inn í tölvu lærir ekkert meira við það að missa tölvuna. Hann hverfur bara út um gluggann eða inn í hausinn á sjálfum sér í staðinn.

Það að nemendur myndu misnota tæknina, sækja einhvern viðbjóð eða skemma tækin og tólin – er verulega ofmetið. Nemendur gera helst svoleiðis ef þeir upplifa sig í einhverju reipitogi við þá sem skammta þeim tækin. Þeim finnst voða fyndið að snúa skjánum eða fikta í einhverjum stillingum sem gera kennarann alveg ringlaðan. En nemendur hafa alla tíð krotað dónaskap innan á baðhurðir og á skólaborð án þess að nokkrum hafi dottið í hug að æskilegt væri að skammta notkun blýanta. Þegar nemandi vinnur spjöll á tækninni er það merki um að eitthvað sé bogið við samband hans við tæknina og kennarana. Þar sem sambandið er heilbrigt eru nemendur hjálpsamir og úrræðagóðir – ekki undirförlir og svikulir. Og heilbrigt samband í námshópum er svo mikilvægt markmið að enginn kennari ætti láta þess ófreistað að byggja það upp. Það er auðveldara en maður heldur.


En þar fyrir utan þá er t.d. iPad þeirrar náttúru gæddur að möguleikar nemandans til að fikta eru verulega takmarkaðir. Kennarinn geymir lykilorðið sem nemandinn þarf til að breyta hlutum. Ef einhver sækir í einhvern dónaskap á netinu dílar maður við það eins og gaurinn sem hangir í kynfræðslubókinni á bókasafninu. Maður kennir honum að sumt á stundum við og stundum ekki.

Tilgangur upplýsingatækni er ekki að fikta í flottum og dýrum græjum og finna til sín. Tilgangurinn er að gera starfið skilvirkara og fjölbreyttara. Brjóta upp áratugagamla stöðnun sem þrátt fyri góðan vilja hefur verið seinyfirunnin. Ritað mál færði vald og tækifæri upp í hendurnar á venjulegu fólki frá sérfræðingunum sem áður skömmtuðu þekkinguna. Upplýsingatæknin er næsta skref. Hún gerir allt auðveldara ef henni er rétt beitt. Og kennarar ættu að fagna þessu sérstaklega vegna þess að í fyrsta skipti verður virkilega raunhæft að nota tímann til uppbyggilegra hluta.

Það tekur innan við sekúndu að leita að orði í leitarvél. Það getur tekið þrjátíu sinnum lengri tíma að fletta því upp. Það tæki óratíma að leita í bók að öllum tilvikum þar sem ákveðið nafn eða orð kemur fyrir. Það tekur enga stund með notkun tækninnar. Það þarf ekki lengur að skammta nemendum efni og halda aftur af þeim. Það verður ekkert erfiðara að sinna 30 nemendum á 30 mismunandi stöðum en öllum á sama stað.

Það eru ekki allir á sama „stað“ þótt þeir deili sama rými


Ég þarf ekki einu sinni að telja upp alla möguleikana þeir eru augljósir.


En það sem er augljósast eru leiðirnar til að brúa bilið milli tækninnar og veruleikans. Nemendur geta málað, smíðað, byggt – og allan tímann verið í sambandi við kennarann. Sjáið bara möguleikana eins og í notkun iPad eða iPhone og Locatify-appsins (sem er íslenskt). Þar nýtist staðsetningarbúnaður tækisins þannig að nemendur geta þvælst um umhverfi skólans eða út um allt í skólaferðalögum og tækið vísar þeim á tiltekna staði og segir þeim frá þeim eða felur þeim verkefni.

Smátt og smátt geta nemendur ekki aðeins unnið verkefnin sín fjölbreyttari hátt heldur líka hraðar. Og þá er lag til að gera það sem aldrei hefur unnist tími til: að sinna öllum vanræktu hliðunum á námskránni. Að fara út. Gera eitthvað með höndunum. Syngja. Spila á hljóðfæri. Fara í fjós eða bíó. Víkka út sjóndeildarhringinn og reynsluheiminn. Máta námsefnið við veruleikann.

Tækninni er nefnilega ekki stefnt til höfuðs fjölbreyttri, lifandi kennslu. Henni er stefnt til höfuðs einstrengingslegu, bókamiðuðu, ofstöðluðu iðnbyltingarnámi.

Er eitthvað því til fyristöðu að nemendur fái svona aðstöðu?

Við fórnum engu sem er þess vert að bjarga með því að stíga skrefið.

Upplýsingatækni kennarans 3: Öpp og iPad.


Öpp

Hér ætla ég aðeins að skoða þá möguleika sem felast í notkun „appa“ til hagræðis fyrir nemandann og kennarann. Ég mun halda mig við iOS-öpp (fyrir iPad og iPhone) því ég hef ekki kynnt mér Android eða önnur stýrikerfi jafn vel.

Það eru nefnilega ekki einstakar bækur sem kennarar eru ráðnir til að kenna. Þeir eru ráðnir til að ná tilteknum markmiðum.


Skoðum dæmi um markmið í námskrá og leiðir til að ná þeim með öppum í stað þess að nota hefðbundnari kennsluaðferðir.

Hér má sjá upphaf lista um lokamarkmið náms í ensku:

Hér langar mig að benda á dæmi um sitthvort appið sem nota mæti til að ná þessum markmiðum bærilega. 

Hið fyrra heitir Press Reader og er ókeypis.  En með því má sækja dagblöð frá öllum heimshornum og á fjöldanum öllum á tungumálum. Þarna eru meira að segja íslensku blöðin. Þegar maður sækir forritið fær maður ókeypis 7 (minnir mig) eintök af áskriftarblöðum (ég sótti t.d. Moggann daginn sem fréttin um spjaldtölvurnar birtist). En megnið af blöðunum má sækja ókeypis og jafnvel fá áskrift að. Í fljótu bragði sýnist mér ennfremur að ekkert væri því til fyrirstöðu að nota appið sem áskriftarapp fyrir íslensk blöð fyrir skóla eða hvern sem er. Menn þyrfti bara að gefa út rafræna útgáfu og skrá hana þarna inn.


Góður ensku- (eða dönsku-)kennari gæti hafið hvern morgun á því að glugga í blöðin. Jafnvel beðið nemendur að kíkja í þau og sjá, hvort eitthvað markvert væri að frétta. Nemendur gætu svo lesið upp úr blöðunum eða gert eitthvað sniðugt eins og enskt/danskt fréttakviss eða eitthvað annað.


Næsta app er hreinlega iBooks, það er líka ókeypis.

Inn í það má senda rafbækur og lesa þær á skjánum. Sjálfum finnst mér ögn betra að lesa af Kindle-lesaranum (líka ókeypis) en það er ekki stór munur. 

Bækurnar getur maður sent nemendunum með tölvupósti eða sótt í bókabúð Apple. Þar fann ég t.d. bókina Visit to Iceland eftir Idu Pfeiffer sem lýsir Íslensku samfélagi um miðja 19. öld. Í lok bókarinnar er ensk þýðing á Gunnarshólma (halló, samþætting við samfélagsfræði og íslensku!). En auðvitað má sækja nýrri og eldri bækur, allt eftir þörfum – og sæmilega klár kennari getur búið til sínar eigin (jafnvel með hljóðupplestri og hreyfimyndum) sem nemendur geyma í rafrænu bókahillunni sinni.

Og í enskukennslu kemur sér vel að ef nemandi skilur ekki orð þá nægir að halda fingri á orðinu og skýring kemur upp. Ef hann þekkir ekki nafn heldur maður fingri yfir nafninu og manni er boðið að gúgla það eða fletta upp á Wikipediu.

Skoðum íslensku:

Fyrstu tvö markmiðin þar lúta að framsögn og flutningi. Til að styðja við það er fjöldinn allur af öppum. Einfaldast er auðvitað að búa til lokaða Youtube-rás þar sem nemandinn setur inn upptökur af eigin flutningi. iPaddinn er með tvær innbyggðar myndavélar og appið flytur myndbönd inn á Youtube með afar einföldum hætti. Ef kennarinn (og foreldrar) hafa aðgang að Youtube-rás nemandans getur nemandinn skilað þar inn til námsmats fjölbreyttum verkefnum – þar á meðal í framsögn.

Nemandinn getur líka sent myndbandið sem viðhengi til kennarans í tölvupósti.





Skoðum stærðfræði:


Ég er, og hef lengi verið þeirrar skoðunar að frumþáttun sé gríðarlega mikilvæg. Miklu mikilvægari en margföldunartaflan t.a.m. Það er að mínu mati mjög æskilegt að nemendur hafi þáttun á valdi sínu til að hindra að stærðfræðin við lok grunnskóla og byrjun framhaldsskóla verði verði mönnum fjötur um fót. Nema hvað, ég hef enn ekki séð einfaldari og átakslausari aðferð við að kenna þáttun en appið Factor Samurai (ókeypis).

Það er leikur í ætt við Fruit Ninja og snýst um að höggva í sundur allar aðrar tölur en frumtölur. Ef maður heggur t.d. töluna 25 þá brotnar hún í 5 og 5. Ef maður heggur í 5 þá missir maður líf. Smátt og smátt verður nemandinn eldfljótur að þátta tölur.

Og fyrir þá sem farnir eru að fást við þyngri útreikninga er til fullt af öppum sem þátta tölur fyrir þig. Sem og öpp sem breyta á milli mælieininga eða þýða á milli talnakerfa. Það er nóg af stærðfræðiöppum, það er nokkuð ljóst.

Samfélagsfræði?



Hér er til alveg hreint magnað app. Timeline Eons (ókeypis).



Með því er hægt að klípa og strjúka sér leið frá upphafi alheims til áætlaðra endiloka sólkerfisins (og lengra). Appið er mjög myndrænt og fjölnota. Og þekkingarforðinn stækkar sífellt. Með því að slá inn „homo sapiens“ var ég strax kominn á sporið.






Það væri ekkert því til fyrirstöðu að samþætta enskukennslu og samfélagsfræði í einstökum atrennum. En stærsti kosturinn er auðvitað sá að ákveðnir nemendur halda áfram að grúska og nema af appi eins og þessu og eru ekki háðir talfærum kennarans upp á að afla sér þess sem vekur áhuga þeirra.



Náttúrufræði og umhverfismennt




 Helsti kosturinn við öpp í náttúrufræði er möguleikinn á nýjustu gögnum. Það er hægt að lyfta iPaddinum upp og fá mynd af stjörnuhimninum sem fylgir þér ef þú snýrð þér. Þannig getur þú borið það sem þú sérð úti saman við upplýsingarnar í appinu sem segir þér hvaða stjarna er hvað.

Ég er sjálfur doldið skotinn í ögn nördalegum og ósexí öppum eins og Artic Watch (ókeypis)


 eða einhver af þeim fjölmörgu (ókeypis) veðurathugunaröpp sem í boði eru.


Með slíkum öppum fá nemendur samhengi og nýjustu upplýsingar. Slík öpp eru til hundruðum saman. Sum skrá veðrið, önnur vatnsforða eða heimskautaís, enn önnur jarðskjálfta. Og svo mætti lengi telja.


Ekki eitt af öppunum sem hér eru nefnd kosta pening. En maður þarf að vera bæði blindur, heyrnarlaus og verulega fúllyndur til að sjá ekki hvílíka yfirburði tæki eins og iPad hefur yfir kennslubækur. Auk þess er tækið meðfærilegt, með innbyggðar myndavélar, hljóðnema, staðsetningarbúnað (gps) og hreyfiskynjara. Sem veitir því margvíslegt forskot á hefðbundar tölvur. Loks er það svo einfalt í notkun að sonur minn (15 mánaða) kann á því grunntökinn og sonur samkennara míns (á leikskólaaldri) kann að hringja í ömmu sína á Skype ef mamma leggur frá sér tækið.

En ég vil þó árétta eitt. Ég lít fyrst og fremst á hlutverk tækja eins og iPad að frelsa okkur frá skólaborðunum og skólabókunum. Ég mun síðar nefna hvernig upplýsingatæknin getur skapað tíma og rými til að brjóta sér leið út úr kennslustofunni og út í veruleikann. Sýndarveruleiki upplýsingartækninnar er að mínu mati markvissasta leiðin til að brjóta niður sýndarveruleika skólastofu iðnbyltingarinnar. En þar erum við því miður flest enn stödd í skólum landsins.