Thursday, July 5, 2012

Tvær leiðir til að gera menntakerfið miklu, miklu betra.



Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að notkun upplýsingatækni í kennslu skapi kjörskilyrði fyrir skólakerfi hinna dreifðu byggða (m.a. hér og hér). Með tiltölulega auðveldum hætti geta litlir skólar orðið þeir bestu í heimi – hvar sem er á jarðarkringlunni, því risavöxtur rafrænna samskipta hefur í raun útrýmt nauðsyn þess að allir búi í hnapp.



Þar með er ekki sagt að ég sé búinn að gefa stór skólasamfélög upp á bátinn. Alls ekki. En sumpart glíma þau við meiri vanda en þau litlu.

Mig langar að reifa tvennt sem ég held að yrði mjög til bóta fyrir íslenska skólakerfið og kannski sérstaklega í stærri þéttbýlisstöðum.

Hið fyrra: aðgangur að tækjum og búnaði.



Það er staðreynd að skólarnir víða (og örugglega í Reykjavík) eru sérlega illa búnir tækjum og búnaði. Það hefur í raun verið sáralítil endurnýjun síðan fyrir hrun. Þetta er ein stærsta meinsemd skólaþróunar í borginni nú um stundir.

Það er líka staðreynd að mikið af þeim búnaði sem settur hefur verið í skólana er og var illa nýttur – og stundum alls ekki nýttur. Tölvur hafa verið notaðar sem ritvélar og skjávarpar sem myndvarpar. Skólastarfið hefur ekki breyst í takt við tæknina og sóunin í kerfinu í heild hleypur á tugum eða hundruðum milljóna síðustu 15 ár eða svo.

Líklega viðbragðið er einhverskonar kvótakerfi þar sem hver skóli fær úthlutað einhverri upphæð úr of mögrum sjóðum til tækjakaupa og öll áhersla verður lögð á hagsýni og hámarks nýtni. Það gæti jafnvel þýtt að í stað þess að tæknin þróist áfram þá renni hún afturábak – í klikkaðri viðleitni við að kaupa ódýrt og nýta það sem fyrir er. Það er t.d. fjárhagslega hagkvæmt að kaupa aðeins eina stóra og sterka tölvu og ódýrar útstöðvar sem tengdar eru við skjái sem til eru nú þegar. En kennslufræðilega er það algjör stöðnun.

Sú lausn sem ég sting upp á er þessi: Með það að markmiði að gera endurnýjun tækjabúnaðar markvissa, réttláta og koma í veg fyrir sóun þá ætti að úthluta tækjum í samræmi við yfirlýsta stefnu í upplýsingatækni. Skólar skili inn óskum um tækjakaup ásamt áætlunum um notkun og skýringu á skólaþróunarlegum tilgangi kaupanna. Fái skóli tæki skuldbindur hann sig til að undirgangast gegnsætt innleiðingarferli og gerist um leið heimaskóli sem tekur að sér að hjálpa skólum sem kjósa að fara sömu leið að innleiða tæknina. Skólar sem fara svipaðar leiðir hafi með sér samstarf um kennsluhætti og aðföng og skili skýrslum um framkvæmdina.



Með öðrum orðum. Skólar sem fyrstir fá, leggja jafnframt mest á sig til að liðsinna þeim sem á eftir koma. Tækjakaup séu sett í samhengi við kennsluhætti og notkun og höfð samskipti og samráð um nýtinguna.

Þeir skólar sem kjósa ekki að fara í markvissa þróun í upplýsingatækni njóta þá ódýrra, hefðbundinna lausna eða eru saltaðir ef mjög þröngt er í búi.

Skólar sem eru enn að bíða eftir tækjum geta í millitíðinni unnið markvisst að áætlanagerð og fylgst með innleiðingu búnaðar og kennsluþróun í öðrum skólum. Slík vinna er lykill að því að innleiðing gangi síðan hratt, vel og þrautalaust fyrir sig.

Hið seinna: Endurnýjun kennara og spekileki.

Ég hef oft sagt að nýr kennari með rétta hugmyndafræði og góða kennslufræði er líklega að flestu leyti samt slakari kennari en eldgamall kennari sem löngu er farinn að stirðna. Reynslan er gulls ígildi.



Staðan nú er þannig að skólakerfinu blæðir fyrir það að nýliðar nema ekki af þeim eldri – og nýliðun er sem slík alltof lítil og léleg. Það eru 14 sinnum fleiri kennarar á sjötugsaldri en innan við 25. Ungir kennarar brenna líka hratt út og staldra stutt við.

Hluti af vandanum er kennaramenntun. Sem satt að segja hefur ekki verið uppfærð til nútímans. Kennarar eru ekki menntaðir eins og þeim er kennt að menntun eigi að fara fram. Vettvangsnám þeirra er auk þess lítið og frekar lélegt.

Ég sting upp á því að eitt af þessum fimm árum námsins verði kandídatsár. Kennaraneminn fari út í skólana og starfi þar heilan vetur að öllum þeim verkefnum sem í starfinu felast. Hann fái umsjón með litlum hópi nemenda og taki þátt í félagsstarfi, foreldrasamstarfi, teymisvinnu og öðru því sem starfið snýst um. Hagurinn af þessu yrði augljós og afgerandi og gerði nemann mun hæfari til að ákveða framhaldið. Skólinn bæri ekki launakostnað af nemanum.


En, og þetta er mikilvægt, í staðinn fyrir að taka á sig svona verulegan hluta af uppfræðslu nemans fái viðkomandi skóli inni fyrir eldri kennara í kennaranáminu. Og það yrði hluti af reglulegri endurmenntun hvers kennara að fara í tiltekinn tíma inn í háskóla og læra hvað er nýtt – og þetta er það mikilvægasta – hafa áhrif á það sem þar er kennt. Háskólinn myndi nota komur þessara kennara til að koma á gagnvirku sambandi milli nema, eldri kennara og stofnunarinnar. Fræðilegar útektir væru gerðar á skólaþróun og raunveruleika kennarastarfsins með öðru.

Fái skólar einn til fimm kennaranema að jafnaði, ár í senn, ætti að vera auðvelt að sjá til þess að „endurmenntun“ væri markviss og mikil. Og, best af öllu, eldri kennarar miðla markvisst af reynslu sinni og þekkingu til yngri kennara, kennaranema og leggja sinn skerf til kennaramenntunar og rannsókna.

Í þessu felst að þeir sem mennta kennara græddu mest á því að hætta að blaðra við púlt og taka í staðinn upp námssamfélög þar sem hlutverk háskólakennarans er orðið að leiðbeina og leiða – í stað þess að mata.

Kennari sem ætlar aðeins að mata er úreltur. Hann hefur ekkert hlutverk í skóla framtíðar.

1 comment:

  1. Frábærar hugmyndir. Allar saman.
    Í framhaldi af því, er hægt að koma í heimsókn í Norðlingaskóla og sjá Ipaddanotkun í aksjón?
    Kveðja,
    Bjarki

    ReplyDelete