Saturday, November 17, 2012

Atferlismótun og agi í skólakerfinu


Í fyrsta pistli mínum um SMT byrjaði ég á að ræða nokkuð sem ég tel ástæðu til að árétta hér. Ein af ástæðum þess að miðstýring er eitur fyrir skólakerfi er að miðstýring er andstaða valdeflingar og þar með ábyrgðar. Til þess að maður upplifi sig ábyrgan gagnvart umhverfi sínu og skjólstæðingum þarf maður að hafa vald yfir athöfnum sínum.

Mín skoðun er sú að sá skóli er bestur sem reynir ekki að laða fram aga með hlýðni. Mín reynsla er sú að þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir í skólaumhverfi þá skapist vaxtarskilyrði fyrir réttnefndan aga. Takist auk virðingar og trausts að fylla nemendur metnaði þá kemur til kasta agans. Sjálfsaga, sem snýst um vitsmunalegan heiðarleika, vandvirkni og eljusemi.

Ytri agi, sem einkennist af hlýðni, er hvorki nauðsynlegt né nægjanlegt skilyrði þess að innri agi verði til.

Skóli á að mínu mati að vera umhverfi sem einkennist af forvitni, katínu og persónulegum sigrum. 

En jafnvel í fullkomnum skóla eru vandamál.

Skólakerfi sem einblínir á mælanlegan árangur, iðni og dugnað er furðu blint á skaðsemi sína þegar kemur að kvillum eins og kvíða, meðvirkni og þráhyggju. Margir nemendur þjást í hljóði undan þeim óhuggulegu kröfum sem þeir gera til sjálfra sín. Sumir þeirra eru jafnvel enn verr farnir vegna stöðugrar „jákvæðrar“ endurgjafar frá skólaumhverfinu þegar „dugnaðurinn“ og „samviskusemin“ bera líðanina ofurliði.

Að einhverju leyti getur umhverfi sem byggir á trausti orðið til þess að slík vandamál komi upp á yfirborðið – og að öðru leyti geta breyttar kennsluaðferðir varpað ljósi á hættumerkin – en enginn skóli er eyland og jafnvel fullkominn skóli má sín lítils yfir pressu sem heilt, árangursmiðað, hrokafullt og dauðsnobbað skólakerfi skapar.

Fjölmörg börn glíma ennfremur við mikla vanlíðan vegna ýmissa erfiðra aðstæðna eða jafnvel erfða. Enginn skóli getur búið til skólaumhverfi sem mildar sár allra. Í mörgum tilfellum gerir skólinn illt verra.

Öll börn hafa meira gagn af hlýju en hlýðni. Öll börn hafa meira gagn af einlægu trausti en einberum ytri aga. Sum börn þurfa bara miklu meiri hjálp.

Hlutverk starfsmanna skólans er að átta sig á hvenær barn þarf meiri hjálp. Helst án þess að barnið þurfi fyrst að sökkva niður í myrkustu fen vanlíðunar og áhættu. 

Það er síðan skylda kennara og annars skólafólks að einstaklingsmiða viðbrögð sem henta þörfum barnsins. Þau viðbrögð þarf að vinna í samstarfi við foreldra eða forráðamenn barnsins og barnið sjálft. Það þurfa allir að vera í sama liði. 

Heilt sveitarfélag getur aldrei „staðlað“ úrræði sem beita á á öll börn sem lenda í vanda. 

Sumum börnum hentar samtalsmeðferð. HAM getur virkað vel fyrir marga. Atferlismótun svínvirkar í samstilltu átaki heimilis og skóla. Lyfjagjöf hentar sumum.

Það ætti samt enginn að þurfa að setja börn sín á lyf undan þrýstingi frá skóla. Þannig er það nú samt. Foreldrar upplifa sumir mikla pressu á að „laga“ börn sín þannig að þau hætti að vera „vandamál“ í skólanum. Slík pressa, hvort sem hún er meðvituð eða ómeðvituð, er algjörlega siðlaus. 

Kennari eða skólastjóri getur ekki ætlast til þess að dómgreind hans ráði ríkjum við lausn vandamála allra barna. Hlutverk skólafólks er aðeins að vera þátttakandi í að leita leiða til að börnunum vegni betur.

Markmiðið má aldrei vera það að barnið „sé til friðs“ í skólanum. Stefna á að mesta mögulega bata. Ég hef djúpar efasemdir um lyfjagjöf sem gerir börn „spakari“ á skólatíma en sviptir þau matarlyst og gerir snælduvitlaus þegar líða fer á daginn og kvöldið.

Skóli þarf alltaf að vera tilbúinn að laga sig að þörfum nemenda og ganga í lið með sérfræðingum við lausn á vanda barna. 

Þótt mér þyki SMT-atferlismótunarkerfið andstyggilegt, yfirborðskennt og grunnhyggið þá hika ég ekki að mæla með atferlismótun sem einstaklingsmiðuðu úrræði. Ég álít það skyldu mína sem annarra kennara að taka höndum saman með foreldrum kjósi þeir að fara slíka leið. 

Það er börnunum fyrir bestu.

Það er hið endanlega markmið alls náms.

No comments:

Post a Comment