Hvort skyldi vera mikilvægara markmið: að fá fólk til að gera það sem það vill ekki gera eða fá það til að vilja það sem það gerir?
Ég er ekki í neinum sérstökum vafa.
Eftir því sem ég hef í starfi mínu sem kennari aukið frelsi nemenda minna meira sé ég sífellt betur að stærsta verkefni mitt er að yfirvinna ábyrgðarfælni nemenda minna. Í sumum tilfellum má vel vera að það takist ekki – en oftast hefst það á endanum. Ábyrgðarfælni nemenda er ekkert undarleg ef haft er í huga að menntakerfið gerir í því að svipta nemendur bæði frelsi og ábyrgð. Maður getur klárað háskólanám án þess að þurfa nokkru sinni að standa í alvöru undir sjálfum sér. Það er nóg að vera leiðitamur og hlýðinn.
Innri hvati skiptir að mínu mati öllu máli. Sá sem er drifinn áfram af sjálfum sér og er sinn eigin dómari – hann hefur menntast.
Ég hef lengi haft óbeit á yfirborðsmennskunni í menntakerfinu. Það er sjaldnast gert ráð fyrir því að undir yfirborði barna leynist hugsuður. Eitthvað skapandi afl sem bíður þess að vera leyst úr læðingi. Safn hæfileika og hugmynda sem mun við réttar aðstæður verða steypt í manneskju sem skilur meira eftir sig en rákir á yfirborðinu.
Sérstaklega hef ég óbeit á þeirri bjánalegu hugmynd að ekki sé hægt að hvetja börn og unglinga til neins – nema undir þeim formerkjum að það sé keppni. Mælsk börn þurfa ekki Morfís, forvitin börn þurfa ekki Gettu betur, skapandi börn þurfa hvorki Stíl né Skrekk, hraust börn þurfa hvorki Skólahreysti né Shellmót. Það er í raun algjörlega óskiljanlegt hvers vegna börn mega ekki vera skapandi, skynsöm eða hraust án þess að það þurfi sífellt að etja þeim gegn hverju öðru.
Það er eitthvað andstyggilegt við það að börn séu dregin í leikhús til að horfa á sköpunarverk jafnaldra sinna og öll orkan fer í að öskra í sífellu slagorð og pússa múgsálina. Það er heimskulegt að börn skuli ekki hvött til að dást að og verða fyrir áhrifum af sköpunarverkum og hæfni listhneigðra jafnaldra – því þau eru of upptekin við að „halda með“ sínu fólki og vera gegn öðrum.
Það er kjánalegt hvernig fólk stillir samræmdum prófum upp sem keppni milli landshluta, sveitarfélaga og skóla.
Það er alltof mikill þungi í því yfirborðskennda og fánýta.
Unglingar sem virkilega tjá hugðarefni sín í listum eða ögrandi menningu myndu aldrei sitja pikkfastir í klisjum. Hversu stór hluti Skrekksverka ætli fjalli um einelti eða útskúfun? Miklu stærri hluti en samsvarar áhuga unglinganna á efninu. Þeir hanga á efninu eins og hundar á roði til að þóknar hinum fullorðnu. Þeir halda að þetta sé það sem við viljum. Og þetta er það. Því er nú fjandans verr.
Ég fær líka alveg grænar bólur á sálina í hvert sinn sem ég hlusta á sama tilgerðarlega upplestrarstílinn sem börnum er taminn í stóru upplestrarkeppninni. Hann minnir mig á Morfís.
Öll þessi keppni er misskilningur. Landsbankinn verðlaunar lífsleikni, Umferðarstofa gefur einum bekk pítsur svo er ljóðekeppni, teiknikeppni og svo mætti lengi telja. Raunar virðist ekki nokkur einasti maður hafa hugmynd um hvernig hægt er að nálgast börn eða unglinga án verðlauna.
Þetta er því ömurlegra sem það er augljósara að þótt verðlaun kunni að vera ágæt leið til að fá okkur til að gera það sem okkur langar ekki að gera – þá hafa þau þveröfug áhrif þegar þeim er ætlað að styðja við innri áhugahvöt okkar. Verðlaun draga úr áhuga okkar á að gera það sem við höfum ástríðu fyrir eða ánægju af að gera. Þetta hefur verið ljóst í nærri fjörutíu ár.
Fræg tilraun leiddi þetta fyrst í ljós. Leikskólabörnum sem sýnt höfðu mikinn áhuga á því að teikna var skipt í þrjá hópa. Einn hópur var hvattur áfram með loforði um verðlaun. Hinir tveir fengu að teikna (eða sleppa því) án slíkrar hvatningar. Að verki loknu fengu börnin verðlaunin fyrirheitnu en einnig börnin í öðrum af hinum hópunum. Síðan var fylgst með hvaða áhrif þetta hefði á löngun barnanna í að teikna.
Einn hópur skar sig úr. Áhugi barnanna sem „teiknuðu fyrir verðlaun“ snarminnkaði. Áhugi hinna hópanna hélst áfram hár (án marktæks munar á hópunum tveimur).
Innri áhugahvöt þarf ekki á verðlaunum að halda – þvert á móti eru meiri líkur á að þau spilli fyrir.
Og hvort viljum við í alvöru? Ýta börnum fram á leiksvið sem langar ekki að vera þar – og ýta útaf því börnunum sem vilja vera þar eða styðja við börnin sem raunverulega hafa áhugann?
Af hverju gerum við það ekki?
Hvaða lexíur halda menn í alvöru að börn læri á því að allt þeirra skólastarf sé steypt inn í eitt stórt umbunarkerfi, með stjörnugjöf og verðlaunum. Hversu djúpt rista dyggðirnar sem þannig eru innrættar?
Hvers virði er yfirborðskennt nám í grundvallaratriðum? Þurfa ekki grundvallaratriði að fá að sökkva dýpra inn í persónuleikann?
mMaurildi
Monday, December 3, 2012
Saturday, November 17, 2012
Atferlismótun og agi í skólakerfinu
Í fyrsta pistli mínum um SMT byrjaði ég á að ræða nokkuð sem ég tel ástæðu til að árétta hér. Ein af ástæðum þess að miðstýring er eitur fyrir skólakerfi er að miðstýring er andstaða valdeflingar og þar með ábyrgðar. Til þess að maður upplifi sig ábyrgan gagnvart umhverfi sínu og skjólstæðingum þarf maður að hafa vald yfir athöfnum sínum.
Mín skoðun er sú að sá skóli er bestur sem reynir ekki að laða fram aga með hlýðni. Mín reynsla er sú að þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir í skólaumhverfi þá skapist vaxtarskilyrði fyrir réttnefndan aga. Takist auk virðingar og trausts að fylla nemendur metnaði þá kemur til kasta agans. Sjálfsaga, sem snýst um vitsmunalegan heiðarleika, vandvirkni og eljusemi.
Ytri agi, sem einkennist af hlýðni, er hvorki nauðsynlegt né nægjanlegt skilyrði þess að innri agi verði til.
Skóli á að mínu mati að vera umhverfi sem einkennist af forvitni, katínu og persónulegum sigrum.
En jafnvel í fullkomnum skóla eru vandamál.
Skólakerfi sem einblínir á mælanlegan árangur, iðni og dugnað er furðu blint á skaðsemi sína þegar kemur að kvillum eins og kvíða, meðvirkni og þráhyggju. Margir nemendur þjást í hljóði undan þeim óhuggulegu kröfum sem þeir gera til sjálfra sín. Sumir þeirra eru jafnvel enn verr farnir vegna stöðugrar „jákvæðrar“ endurgjafar frá skólaumhverfinu þegar „dugnaðurinn“ og „samviskusemin“ bera líðanina ofurliði.
Að einhverju leyti getur umhverfi sem byggir á trausti orðið til þess að slík vandamál komi upp á yfirborðið – og að öðru leyti geta breyttar kennsluaðferðir varpað ljósi á hættumerkin – en enginn skóli er eyland og jafnvel fullkominn skóli má sín lítils yfir pressu sem heilt, árangursmiðað, hrokafullt og dauðsnobbað skólakerfi skapar.
Fjölmörg börn glíma ennfremur við mikla vanlíðan vegna ýmissa erfiðra aðstæðna eða jafnvel erfða. Enginn skóli getur búið til skólaumhverfi sem mildar sár allra. Í mörgum tilfellum gerir skólinn illt verra.
Öll börn hafa meira gagn af hlýju en hlýðni. Öll börn hafa meira gagn af einlægu trausti en einberum ytri aga. Sum börn þurfa bara miklu meiri hjálp.
Hlutverk starfsmanna skólans er að átta sig á hvenær barn þarf meiri hjálp. Helst án þess að barnið þurfi fyrst að sökkva niður í myrkustu fen vanlíðunar og áhættu.
Það er síðan skylda kennara og annars skólafólks að einstaklingsmiða viðbrögð sem henta þörfum barnsins. Þau viðbrögð þarf að vinna í samstarfi við foreldra eða forráðamenn barnsins og barnið sjálft. Það þurfa allir að vera í sama liði.
Heilt sveitarfélag getur aldrei „staðlað“ úrræði sem beita á á öll börn sem lenda í vanda.
Sumum börnum hentar samtalsmeðferð. HAM getur virkað vel fyrir marga. Atferlismótun svínvirkar í samstilltu átaki heimilis og skóla. Lyfjagjöf hentar sumum.
Það ætti samt enginn að þurfa að setja börn sín á lyf undan þrýstingi frá skóla. Þannig er það nú samt. Foreldrar upplifa sumir mikla pressu á að „laga“ börn sín þannig að þau hætti að vera „vandamál“ í skólanum. Slík pressa, hvort sem hún er meðvituð eða ómeðvituð, er algjörlega siðlaus.
Kennari eða skólastjóri getur ekki ætlast til þess að dómgreind hans ráði ríkjum við lausn vandamála allra barna. Hlutverk skólafólks er aðeins að vera þátttakandi í að leita leiða til að börnunum vegni betur.
Markmiðið má aldrei vera það að barnið „sé til friðs“ í skólanum. Stefna á að mesta mögulega bata. Ég hef djúpar efasemdir um lyfjagjöf sem gerir börn „spakari“ á skólatíma en sviptir þau matarlyst og gerir snælduvitlaus þegar líða fer á daginn og kvöldið.
Skóli þarf alltaf að vera tilbúinn að laga sig að þörfum nemenda og ganga í lið með sérfræðingum við lausn á vanda barna.
Þótt mér þyki SMT-atferlismótunarkerfið andstyggilegt, yfirborðskennt og grunnhyggið þá hika ég ekki að mæla með atferlismótun sem einstaklingsmiðuðu úrræði. Ég álít það skyldu mína sem annarra kennara að taka höndum saman með foreldrum kjósi þeir að fara slíka leið.
Það er börnunum fyrir bestu.
Það er hið endanlega markmið alls náms.
Heimanám – hættum því!
Að mörgu leyti er gott að einkalíf og atvinna blandist að einhverju marki. Það eru ekki svarthvít mörk milli fagmanns og manns. Eðli sköpunar og innblásturs er þannig að það fer ekki eftir klukku. Sumar hugsanir fylgja manni heim úr vinnu og aðrar til baka. Stundum koma tímar þar sem einkalífið þarf meira rými í sólarhringnum og svo koma aðrir þar sem því er öfugt farið.
Að öllu þessu sögðu þá er áhersla íslenska skólakerfisins á heimanám á verulegum misskilningi byggð – það er löngu tímabært að skorin sé upp herör gegn óþörfu og ótæpilegu heimanámi.
Tíu ára barn ætti ekki að þurfa að eiga meira en fimm til sex stunda vinnudag. Sextán ára barn ætti ekki að fara yfir sjö. Við átta stundir ættu almenn mörk að liggja, helst neðar.
Ég held það sé almennt viðurkennt að síaukin ástundun skilar ekki meiri afköstum – og það sem mikilvægara er, betri vinnu. Öll afköst byggja á hvíld. Það er í hvíldinni sem stælingin fer fram og hæfnin til að standa undir meiri byrði verður til. Hvíldarskortur skemmir það sem stæla á. Langvarandi álag veldur fyrr eða síðar líkamlegum og andlegum veikindum. Sú kynslóð sem nú er að fara á eftirlaun ólst upp við aðstæður þar sem fyrstu einkenni þunglyndis komu venjulega fram rétt fyrir þrítugt. Í dag er meðalaldur fyrstu einkenna helmingi lægri, 14 ára. Það er ekki bara betri mælingum að kenna. Börn og unglingar fá ekki næga hvíld í því samfélagi sem við erum búin að skapa þeim.
Mörg börn þurfa að stunda íþróttir á kvöldin eða eldsnemma á morgnanna. Fyrst og fremst vegna þess að þjálfunin er ekki aðalstarf þeirra sem henni sinna og skólatíminn er álitinn heilagur. Sum þessara barna eru auk þess í félagsstarfi eða tónlistarnámi. Ofan á allt þetta bætist heimanám. Oft mikið.
Fjöldinn allur af unglingum er fyrst og fremst sérfræðingar í tímastjórnun og skipulagi og eiga sjaldan dauða stund. Og við, villimannaþjóðin sem við erum, teljum slíkt ástand til dyggða.
Íslendingar vinna þjóða mest – auðvitað án þess að framleiðni sé í samræmi við það. Námsmenn fá samviskubit ef þeir læra ekki á kvöldin og um helgar. Fjölmargir skólar virðast álíta að áhersla á heimanám sé merki um metnaðarfullan skóla – þegar raunin er sú að slík áhersla er yfirleitt blanda af því að þvo hendur sínar af nemendum sem illa er sinnt og neyðarúrræði vegna úreltra kennsluhátta.
Heimanám skapar fjölmörgum heimilum tóm leiðindi og ama. Foreldrar eru í því hlutverki að framfylgja skipunum frá skóla og uppgötva margir mjög snemma að barnið er alls ekki að fá fyrirmæli í samræmi við getu og áhuga. Þá stendur upp á foreldrið að sjá til þess að barnið læri það samt. Í mörgum tilfellum vill svo óheppilega til að foreldrið sjálft á í stökustu vandræðum með að skilja til hvers er ætlast. Vesenið sem af þessu verður brýst venjulega fram í neikvæðni. Annað hvort í viðhorfi foreldra til skóla (eða námsefnis) eða í neikvæðu viðhorfi foreldra til sjálfra sín. Margir skammast sín fyrir að geta ekki „hjálpað“ barninu.
Sum börn njóta þess að fá mikla aðstoð heima og eiga jafnvel foreldra sem sannfærðir eru um gildi heimanáms og vilja frekar meira af því en minna. Þannig gliðnar enn á milli þeirra barna sem geta og hinna sem geta ekki. Í hvert sinn sem börnin mæta í skólann heldur kennslan því áfram frá stað sem er aðeins lengra frá raunverulegri námstöðu þeirra barna sem eiga erfitt en daginn áður. Með þessu móti tekst skólakerfinu í heild að tryggja það að stór hluti Íslendinga fari nú örugglega með brotna sjálfsmynd út í lífið.
Kennarar taka að sér hlutverk lögsögumanna og harðneita að láta það af hendi. Þeir eyða dögunum í skólanum í að segja hluti og ætlast svo oft til þess að foreldrar sjái til þess að þeir skiljist. Þetta er öfugsnúningur. Það vandasama við hlutverk kennarans er að leiða börn áfram til skilnings. Það auðvelda er að segja frá. Það væri strax skárra ef kennarar sendu bara heim blöð sem foreldrar gætu lesið fyrir börn sín með staðreyndum og síðan tækju kennarar við þeim í skólanum og gerðu með þeim heimalærdóminn.
Það er þessi fjandans samviskusemi sem viðheldur þessu rugli. Sumir foreldrar eru harla stoltir af því að börn þeirra taki heimanám föstum tökum. Fagna jafnvel tækifærinu til að koma barni sínu í sérflokk svo það komist nú örugglega í Verzló eða MR eða hvaða skóli sem það er sem þessi tiltekna fjölskylda heldur í einfeldni sinni að sé betri en allir aðrir.
Aðrir eiga einhvernveginn erfitt með að sjá skólann fyrir sér án heimanáms. Halda að lestur lærist ekki nema börnin lesi á hverjum degi heima. Halda að æfa þurfi upp leikni í stærðfræði og málfræði. Gera með öðrum orðum ráð fyrir að vinnudagur barna í skóla sé ekki nógu langur til að koma öllu fyrir sem læra á. Þetta fólk áttar sig ekki á því að ævin er ekki nógu löng til að læra allt. Það skiptir á endanum litlu máli hversu mikið þú lærir, öllu skiptir að læra vel.
Börn geta vel orðið læs, skrifandi og reiknandi þótt skólinn troði sér ekki inn í frítíma þeirra líka. Barn þarf að hafa næði til þess að geta sökkt sér af eigin hvötum í góða bók eða bíómynd. Það eru til fjölmörg dæmi um börn sem kenndu sjálfum sér að lesa þegar lesefnið varð loks nógu áhugavert.
Heimanám er heimskuleg ráðstöfun tíma. Það er ágætt að mörk skóla og einkalífs séu fljótandi upp að vissu marki. En það er löngu tímabært að menn átti sig á því að það er betra að hafa þessi mörk en að hafa þau ekki og að meðvirkt vinnusiðferði skilar á endanum ekki betri vinnu – ekki einu sinni meiri vinnu.
Ég held að sterkasta límið í slímsetu heimanáms sé sálfræðileg staðreynd. Aftökusveitir Þjóðverja voru víst þannig að í eina byssu við hverja aftöku fór púðurskot. Með því móti gat Günther farið heim með tandurhreina samvisku. Hann var aðeins tölfræðilega líklega sekur um manndráp. Það gátu líka allir hinir meðlimir sveitarinnar. Með því að hrúga heimanámi á börn geta kennarar á vissan hátt þvegið hendur sínar af vanmætti slakra nemenda. Slakur lestur er þá á ábyrgð foreldra sem ekki drilla börnin nóg. Maður getur allavega sem kennari trúað því að það sé ekki maður sjálfur sem sinni barninu illa – heldur foreldrarnir.
Raunin er auðvitað sú að skólanum ber að sinna barninu þar sem það er statt. Raunin er líka sú að vinnudagur barna er meira en nógu langur.
Vandinn er að það eru alltof fáir að horfa á hvernig börn læra – þeir eru svo hugfangnir af því „hvað“ þau læra.
Thursday, July 5, 2012
Tvær leiðir til að gera menntakerfið miklu, miklu betra.
Þar með er ekki sagt að ég sé búinn að gefa stór skólasamfélög upp á bátinn. Alls ekki. En sumpart glíma þau við meiri vanda en þau litlu.
Mig langar að reifa tvennt sem ég held að yrði mjög til bóta fyrir íslenska skólakerfið og kannski sérstaklega í stærri þéttbýlisstöðum.
Hið fyrra: aðgangur að tækjum og búnaði.
Það er staðreynd að skólarnir víða (og örugglega í Reykjavík) eru sérlega illa búnir tækjum og búnaði. Það hefur í raun verið sáralítil endurnýjun síðan fyrir hrun. Þetta er ein stærsta meinsemd skólaþróunar í borginni nú um stundir.
Það er líka staðreynd að mikið af þeim búnaði sem settur hefur verið í skólana er og var illa nýttur – og stundum alls ekki nýttur. Tölvur hafa verið notaðar sem ritvélar og skjávarpar sem myndvarpar. Skólastarfið hefur ekki breyst í takt við tæknina og sóunin í kerfinu í heild hleypur á tugum eða hundruðum milljóna síðustu 15 ár eða svo.
Líklega viðbragðið er einhverskonar kvótakerfi þar sem hver skóli fær úthlutað einhverri upphæð úr of mögrum sjóðum til tækjakaupa og öll áhersla verður lögð á hagsýni og hámarks nýtni. Það gæti jafnvel þýtt að í stað þess að tæknin þróist áfram þá renni hún afturábak – í klikkaðri viðleitni við að kaupa ódýrt og nýta það sem fyrir er. Það er t.d. fjárhagslega hagkvæmt að kaupa aðeins eina stóra og sterka tölvu og ódýrar útstöðvar sem tengdar eru við skjái sem til eru nú þegar. En kennslufræðilega er það algjör stöðnun.
Sú lausn sem ég sting upp á er þessi: Með það að markmiði að gera endurnýjun tækjabúnaðar markvissa, réttláta og koma í veg fyrir sóun þá ætti að úthluta tækjum í samræmi við yfirlýsta stefnu í upplýsingatækni. Skólar skili inn óskum um tækjakaup ásamt áætlunum um notkun og skýringu á skólaþróunarlegum tilgangi kaupanna. Fái skóli tæki skuldbindur hann sig til að undirgangast gegnsætt innleiðingarferli og gerist um leið heimaskóli sem tekur að sér að hjálpa skólum sem kjósa að fara sömu leið að innleiða tæknina. Skólar sem fara svipaðar leiðir hafi með sér samstarf um kennsluhætti og aðföng og skili skýrslum um framkvæmdina.
Með öðrum orðum. Skólar sem fyrstir fá, leggja jafnframt mest á sig til að liðsinna þeim sem á eftir koma. Tækjakaup séu sett í samhengi við kennsluhætti og notkun og höfð samskipti og samráð um nýtinguna.
Þeir skólar sem kjósa ekki að fara í markvissa þróun í upplýsingatækni njóta þá ódýrra, hefðbundinna lausna eða eru saltaðir ef mjög þröngt er í búi.
Skólar sem eru enn að bíða eftir tækjum geta í millitíðinni unnið markvisst að áætlanagerð og fylgst með innleiðingu búnaðar og kennsluþróun í öðrum skólum. Slík vinna er lykill að því að innleiðing gangi síðan hratt, vel og þrautalaust fyrir sig.
Hið seinna: Endurnýjun kennara og spekileki.
Ég hef oft sagt að nýr kennari með rétta hugmyndafræði og góða kennslufræði er líklega að flestu leyti samt slakari kennari en eldgamall kennari sem löngu er farinn að stirðna. Reynslan er gulls ígildi.
Staðan nú er þannig að skólakerfinu blæðir fyrir það að nýliðar nema ekki af þeim eldri – og nýliðun er sem slík alltof lítil og léleg. Það eru 14 sinnum fleiri kennarar á sjötugsaldri en innan við 25. Ungir kennarar brenna líka hratt út og staldra stutt við.
Hluti af vandanum er kennaramenntun. Sem satt að segja hefur ekki verið uppfærð til nútímans. Kennarar eru ekki menntaðir eins og þeim er kennt að menntun eigi að fara fram. Vettvangsnám þeirra er auk þess lítið og frekar lélegt.
Ég sting upp á því að eitt af þessum fimm árum námsins verði kandídatsár. Kennaraneminn fari út í skólana og starfi þar heilan vetur að öllum þeim verkefnum sem í starfinu felast. Hann fái umsjón með litlum hópi nemenda og taki þátt í félagsstarfi, foreldrasamstarfi, teymisvinnu og öðru því sem starfið snýst um. Hagurinn af þessu yrði augljós og afgerandi og gerði nemann mun hæfari til að ákveða framhaldið. Skólinn bæri ekki launakostnað af nemanum.
En, og þetta er mikilvægt, í staðinn fyrir að taka á sig svona verulegan hluta af uppfræðslu nemans fái viðkomandi skóli inni fyrir eldri kennara í kennaranáminu. Og það yrði hluti af reglulegri endurmenntun hvers kennara að fara í tiltekinn tíma inn í háskóla og læra hvað er nýtt – og þetta er það mikilvægasta – hafa áhrif á það sem þar er kennt. Háskólinn myndi nota komur þessara kennara til að koma á gagnvirku sambandi milli nema, eldri kennara og stofnunarinnar. Fræðilegar útektir væru gerðar á skólaþróun og raunveruleika kennarastarfsins með öðru.
Fái skólar einn til fimm kennaranema að jafnaði, ár í senn, ætti að vera auðvelt að sjá til þess að „endurmenntun“ væri markviss og mikil. Og, best af öllu, eldri kennarar miðla markvisst af reynslu sinni og þekkingu til yngri kennara, kennaranema og leggja sinn skerf til kennaramenntunar og rannsókna.
Í þessu felst að þeir sem mennta kennara græddu mest á því að hætta að blaðra við púlt og taka í staðinn upp námssamfélög þar sem hlutverk háskólakennarans er orðið að leiðbeina og leiða – í stað þess að mata.
Kennari sem ætlar aðeins að mata er úreltur. Hann hefur ekkert hlutverk í skóla framtíðar.
Labels:
Kennaramenntun,
Skólastefna,
Skólaþróun,
Upplýsingatækni
Sókn fyrir hverfandi sveitarfélög
Raufarhöfn er að þurrkast út. Hið sama gildir um fleiri sveitarfélög. Í öllum landsfjórðungum nema einum eru kjarnabyggðarlög með viðvarandi fólksfækkun. Þau má sjá á myndinni:
Þetta eru byggðir sem við erum að tapa. Einhverjum verður ekki bjargað úr þessu – en öðrum má vel bjarga. En til þess þarf að koma til róttæk hugarfarsbreyting. Mig langar að stinga upp á einni lausn.
Ég þekki helming þessara svæða persónulega. Hef búið þar og starfað. Þekki innviðina og fólkið og veit að öll svæðin sem ég þekki af reynslu eru meira en þess virði að þeim sé bjargað.
Byrjum að greina vandann. Í flestum tilfellum er hann sá að fólk með börn hverfur. Aldurssamsetning flestra þessara staða er flöt. Hér er eitt dæmi sem á við um flest sveitarfélögin að einhverju leyti:
Það vantar börn og fólk á virkasta skeiði. Þess í stað eru óvenju fjölmennir árgangar eldra fólks. Ekkert samfélag fæst staðið til lengdar ef þessari þróun er ekki snúið við. Margir staðanna búa einnig við einhæf atvinnuskilyrði og skort á menntunarmöguleikum. Við það hverfa úr samfélaginu hlutfallslega margar konur og eftir verða karlar sem vinna verkavinnu.
Markmiðið verður að vera að fjölga börnum og fólki á virkasta aldri 25 - 45 eða svo.
Það sem ég myndi stinga upp á að yrði gert er í stórum dráttum þetta. Það þarf að draga fram kosti þess að búa úti á landi. Þeir eru ótvíræðir og margir – og fara aðeins vaxandi með „heilbrigðari“ aldurs- og kynjasamsetningu. Þeir eru líka mismunandi eftir stöðum. Tækifæri til útivistar eru td. mismunandi eftir svæðum. Menningarstofnanir og saga er misjöfn. Mannlífið er fjölbreytt. Þannig er örugglega snilld að eiga sjókajak á Raufarhöfn og skella sér í kvöldsiglingar á meðan sá þyrfti að vera illa ónæmur fyrir fegurð mannlífsins og alheimsins sem færi ekki á kvöldin í Pollinn á Tálknafirði. Á mörgum staðanna er frábært tónlistarfólk. Það er t.d. ekki ónýtt að fara á Bach-tónleika hjá Aladár á Húsavík. Mótorkross-nördarnir gætu komist í fóstur hjá Kjartani á Klaustri og rölt með honum Ástarbrautina á kvöldin.
Nema hvað, það er ekki nóg að byggja á því sem fyrir er. Það þarf að bæta einhverju við.
Markhópur þessar sveitarfélaga þarf að vera fólk sem ætlar sér ekki að starfa áfram í þeim atvinnugreinum sem eru jafnt og þétt að drepa þessi byggðarlög úr einsleitni. Mjög mörg störf má vinna hvar sem er. Það eina sem þarf er verulega góð nettenging og vinnuaðstaða. Ferðaþjónusta fer bara vaxandi og þessi svæði eiga þar alla möguleika. Til þess þurfa samgöngur að vera í lagi.
En til að fólk á barneignaaldri flytji til þessara svæða þurfa skólarnir að vera framúrskarandi. Það gerist ekki nema menn þori að breyta kerfinu töluvert mikið. En með framúrskarandi skólum er mikið unnið. Fólk tekur menntun barna sinna mjög alvarlega – sérstaklega það fólk sem mest skortir á þessi svæði. Og ofan á það tekur fólk hamingju barna sinna og heilbrigði mjög alvarlega. Fámennið og náttúran býður upp á mikla möguleika.
Það sem ætti að prófa að gera við skólana á þessum svæðum er eftirfarandi:
Það ætti að leggja alla áherslu á einstaklingsmiðað nám. Henda miðlægum kennslubókum sem hannaðar eru utan um bekkjarkennslu í þéttbýli og taka upp frjálsara, skapandi nám.
Það ætti að tryggja framúrskarandi hæft starfsfólk og borga því vel. Sveitarfélög ættu að taka eitthvað af því tóma húsnæði sem fólksfækkunin hefur skilið eftir sig og breyta í kennaraíbúðir. Íbúðirnar ættu að vera búnar húsgögnum og tækjum og vera aðlaðandi. Á hverjum stað ætti sérstaklega að huga að afþreyingu utan kennslu (siglingar, hestaferðir, fjallaferðir, róðrar...) og síðan ætti sami skólinn að starfa í nokkrum byggðakjörnum í einu. Framúrskarandi kennarar dveldu í einhvern tíma á hverjum stað og færu svo yfir á næsta stað. Það er ekki hægt að halda úti danskennara, heimilisfræði- og náttúrufræðikennara í hverju þorpi. Með þessu móti væri hægt að bjóða upp á frábæra kennslu í öllum greinum – nokkuð sem aðeins stórir þéttbýlisskólar hafa getað hingað til. Það yrði bara gert enn betur en í þéttbýlinu því nálgunin væri einstaklingsmiðuð og fámennið styrkur. Kennarar væru hvattir til að hafa fjölskyldur sem tilbúnar eru að leggja þennan lífsstíl á sig í nokkur ár í staðinn fyrir góð laun og mikla og góða reynslu.
Upplýsingatækni væri notuð markvisst og notast við 1:1 kennslufræði. Nemendur væru markvisst undirbúnir undir líf í 21. aldar samfélagi – en ekki leifar af samfélagi síðustu aldar. Kennarar gætu þess vegna búið í Ástralíu eða Síle – og starfað við skólana.
Reynt væri að laða tímabundið til staðanna fólk með sérhæfða hæfni eða reynslu. Listamenn kæmu og héldu námskeið. Stjórnmálamenn kjördæmanna tækju þátt í samfélagsfræðikennslu (og lytu sömu stjórn kennara og presturinn á staðnum). Listamenn gætu fengið ókeypis vinnuaðstöðu og frið gegn því að leggja sitt af mörkum til skólanna og samfélagsins. Í samstarfi við háskólasetrin og þekkingarmiðstöðvar yrði lagt í mikla símenntun. Rannsóknarmiðstöð ferðaiðnaðarins kæmi að eflingu ferðaþjónustu á svæðunum o.s.frv.
Skólinn yrði samfélagsmiðstöð. Starfið þar væri opið öllu samfélaginu. Eldri borgarar kæmu í skólana og fræddu, segðu börnunum sögur eða læsu fyrir þau. Börnin kenndu þeim eldri á tölvur og tækni. Saman færu allir í ferðalög.
Ég efast ekki eitt augnablik um að svona skólakerfi yrði mjög hratt það langbesta á landinu (og þótt víðar væri leitað). Og ég efast um að það yrði á endanum mikið dýrara en þetta hefðbundna. Vissulega þyrfti Samband sveitarfélaga að styrkja innviði og koma öllu af stað – og ríkið kannski líka. Það þyrfti líka að mölva nokkra múra. En það væri algjörlega þess virði.
Bestu skólar landsins myndu skapa öflugt aðdráttarafl fyrir aldurshópana sem vantar í sveitarfélögin. Flæði fólks í gegnum þau, þar sem hver staldra í einhvern tíma skapar tengsl. Fólk heldur áfram að heimsækja staðinn og lýsir reynslu sinni. Kemur í sumarleyfi eða flyst jafnvel til frambúðar.
Það er engu að tapa að reyna.
Þessi svæði eru að deyja eins og er – og að mörgu leyti fáum við aldrei til baka það sem tapast.
Labels:
Skólastefna,
Skólaþróun,
Upplýsingatækni
Friday, June 29, 2012
„Ekki breyta neinu!“
Mér er minnisstæð lýsing í einni af ritgerðum Þorsteins heitins Gylfasonar þar sem hann heimsótti skóverksmiðju í Tékklandi. Í verksmiðjunni höfðu áður verið framleiddir vandaðir skór en nú var þar allt í niðurníslu og framleiðslan óttalegt hrat. Þar sem Þorsteinn var leiddur um verksmiðjuna lutu starfsmenn höfði þegar hann nálgaðist. Fyrst hélt hann að um væri að ræða venjulegan þrælsótta en sá svo að þeir voru að skoða skó gestanna. Því þótt starfsmennirnir hefðu ekki fengið að gera góða skó árum saman þá lifði með þeim áhuginn á vönduðum skóm.
Þessi saga kom upp í kollinn á mér einn af síðustu dögum skólaársins. Við höfðum fengið í heimsókn hóp af kennurum frá Bretlandi. Flestir voru þeir frá fínum einkaskóla. Þeir fylgdust með okkur í Norðlingaskóla dögum saman og margt kom þeim framandi fyrir sjónir. Einn morguninn fóru þeir með út í Björnslund, útikennslustofuna okkar, í íslenskupróf. „Prófið“ var larp, Hungurleikalarp. Nemendur gátu svo fengið stig fyrir að yrkja ljóð eða flytja texta af námsskránni – og ýmislegt fleira.
Margt smálegt kom Bretunum skringilega fyrir sjónir. Það eitt að við afhentum nemendum, sérstaklega þeim „ofvirkustu,“ hnífa og eldfæri þótti þeim ótrúleg djörfung. Það að sjá stelpuhópinn dreifast um skóginn á æðisgengnum flótta undan drengjunum, ná svo áttum og sameinast í einn hóp sem elti uppi og „myrti“ drengina einn eða tvo í einu – þótti þeim stórkostlegt (einkaskólinn breski var drengjaskóli).
Daginn eftir komu þau með fleiri gesti. Þann dag vildi svo til að ég var að mála með nemendum. Við klæddum okkur í svarta ruslapoka, settum upp trönur og máluðum svo í takt við tónlist, allt frá kínverskri kvöldballöðu upp í þetta. Á snörpustu köflunum söfnuðust nemendur í einn hnapp eins og grísir við gyltu og ég sprautaði yfir hendur þeirra málningu í æðisgengnum ham. Ég þurfti svo að eyða eftirmiðdeginum í að reyna að leysa upp málningarbletti af hellulögninni – en eitthvað verður þar áfram til varandi minningar.
Bretarnir höfnuðu góðu boði um að koma með í siglingu á Bugðu. Lögðu ekki í það og misstu þar af hressandi kennslu. Þar örmögnuðust drengir og bátana þeirra rak stjórnlaust út á Elliðavatn. Einn bátur þurfti að glíma við liðhlaupa sem stökk í land í örvæntingu. En svo skein sólin og það lægði og bátarnir sem á eftir komu lónuðu úti fyrir víkum og vogum og allt var gott. Auðvitað duttu sumir í vatnið eins og gengur – en enginn kvartaði.
Nema hvað, þegar ég hélt að Bretarnir væru farnir kom aldursforseti þeirra hlaupandi til mín. Nokkuð flaumósa. Ég var einmitt að skrúbba málningarbletti. Hann tók mjög fast í hönd mína og sagði: „Ekki breyta neinu. Gerðu það fyrir mig. Ef skólaeftirlitsfólkið kemur og segir ykkur að breyta skólanum skuluð þið bara...“ og svo sýndi hann mér tveggja fingra merkið sem ég átti að sýna eftirlitsmönnunum.
Þessi gamli kennari sagðist hafa upplifað meira lífsfjör og meiri unað af kennslustarfinu á þessum nokkru dögum en í mörg ár á undan. Samt kom hann úr skólaumhverfi þar sem nemendur náðu mjög háum einkunnum, voru agaðir og duglegir. En nám er bara svo miklu meira. Alvöru nám er þróttmikið, skemmtilegt og reynir á. Það á sér ekki stað bograndi yfir bókum í þröngum loftlitlum kennslustofum.
Næstum hver einasti kennari sem ég hitti veit hvernig á að kenna vel. Næstum hver einasti kennari vill kenna vel og ber virðingu fyrir góðri kennslu. Næstum hver einasti kennari veit að við erum ekki að kenna nógu vel.
Fyrir því eru vafalaust margar ástæður – en ég legg til að kennarar reyni markvisst að gera kennslu sína háskalegri og subbulegri. Þá er margt unnið.
Tuesday, May 22, 2012
Tvær nýjar bækur
Rannsóknir á Bugðu 2.
Hér má finna yfirlit yfir helstu fuglategundir sem verpa við Bugðu. Nemendur merkja við þá fugla sem þeir sjá og skila skýrslu.
iBooks (notar flettimöguleika)
Rannsóknir á Bugðu 1
Hér má finna yfirlit yfir helstu gróðurtegundir við Bugðu. Nemendur merkja við þær plöntur sem þeir sjá og skila skýrslu.
iBooks (notar flettimöguleika)
Subscribe to:
Posts (Atom)