Thursday, July 5, 2012

Tvær leiðir til að gera menntakerfið miklu, miklu betra.



Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að notkun upplýsingatækni í kennslu skapi kjörskilyrði fyrir skólakerfi hinna dreifðu byggða (m.a. hér og hér). Með tiltölulega auðveldum hætti geta litlir skólar orðið þeir bestu í heimi – hvar sem er á jarðarkringlunni, því risavöxtur rafrænna samskipta hefur í raun útrýmt nauðsyn þess að allir búi í hnapp.



Þar með er ekki sagt að ég sé búinn að gefa stór skólasamfélög upp á bátinn. Alls ekki. En sumpart glíma þau við meiri vanda en þau litlu.

Mig langar að reifa tvennt sem ég held að yrði mjög til bóta fyrir íslenska skólakerfið og kannski sérstaklega í stærri þéttbýlisstöðum.

Hið fyrra: aðgangur að tækjum og búnaði.



Það er staðreynd að skólarnir víða (og örugglega í Reykjavík) eru sérlega illa búnir tækjum og búnaði. Það hefur í raun verið sáralítil endurnýjun síðan fyrir hrun. Þetta er ein stærsta meinsemd skólaþróunar í borginni nú um stundir.

Það er líka staðreynd að mikið af þeim búnaði sem settur hefur verið í skólana er og var illa nýttur – og stundum alls ekki nýttur. Tölvur hafa verið notaðar sem ritvélar og skjávarpar sem myndvarpar. Skólastarfið hefur ekki breyst í takt við tæknina og sóunin í kerfinu í heild hleypur á tugum eða hundruðum milljóna síðustu 15 ár eða svo.

Líklega viðbragðið er einhverskonar kvótakerfi þar sem hver skóli fær úthlutað einhverri upphæð úr of mögrum sjóðum til tækjakaupa og öll áhersla verður lögð á hagsýni og hámarks nýtni. Það gæti jafnvel þýtt að í stað þess að tæknin þróist áfram þá renni hún afturábak – í klikkaðri viðleitni við að kaupa ódýrt og nýta það sem fyrir er. Það er t.d. fjárhagslega hagkvæmt að kaupa aðeins eina stóra og sterka tölvu og ódýrar útstöðvar sem tengdar eru við skjái sem til eru nú þegar. En kennslufræðilega er það algjör stöðnun.

Sú lausn sem ég sting upp á er þessi: Með það að markmiði að gera endurnýjun tækjabúnaðar markvissa, réttláta og koma í veg fyrir sóun þá ætti að úthluta tækjum í samræmi við yfirlýsta stefnu í upplýsingatækni. Skólar skili inn óskum um tækjakaup ásamt áætlunum um notkun og skýringu á skólaþróunarlegum tilgangi kaupanna. Fái skóli tæki skuldbindur hann sig til að undirgangast gegnsætt innleiðingarferli og gerist um leið heimaskóli sem tekur að sér að hjálpa skólum sem kjósa að fara sömu leið að innleiða tæknina. Skólar sem fara svipaðar leiðir hafi með sér samstarf um kennsluhætti og aðföng og skili skýrslum um framkvæmdina.



Með öðrum orðum. Skólar sem fyrstir fá, leggja jafnframt mest á sig til að liðsinna þeim sem á eftir koma. Tækjakaup séu sett í samhengi við kennsluhætti og notkun og höfð samskipti og samráð um nýtinguna.

Þeir skólar sem kjósa ekki að fara í markvissa þróun í upplýsingatækni njóta þá ódýrra, hefðbundinna lausna eða eru saltaðir ef mjög þröngt er í búi.

Skólar sem eru enn að bíða eftir tækjum geta í millitíðinni unnið markvisst að áætlanagerð og fylgst með innleiðingu búnaðar og kennsluþróun í öðrum skólum. Slík vinna er lykill að því að innleiðing gangi síðan hratt, vel og þrautalaust fyrir sig.

Hið seinna: Endurnýjun kennara og spekileki.

Ég hef oft sagt að nýr kennari með rétta hugmyndafræði og góða kennslufræði er líklega að flestu leyti samt slakari kennari en eldgamall kennari sem löngu er farinn að stirðna. Reynslan er gulls ígildi.



Staðan nú er þannig að skólakerfinu blæðir fyrir það að nýliðar nema ekki af þeim eldri – og nýliðun er sem slík alltof lítil og léleg. Það eru 14 sinnum fleiri kennarar á sjötugsaldri en innan við 25. Ungir kennarar brenna líka hratt út og staldra stutt við.

Hluti af vandanum er kennaramenntun. Sem satt að segja hefur ekki verið uppfærð til nútímans. Kennarar eru ekki menntaðir eins og þeim er kennt að menntun eigi að fara fram. Vettvangsnám þeirra er auk þess lítið og frekar lélegt.

Ég sting upp á því að eitt af þessum fimm árum námsins verði kandídatsár. Kennaraneminn fari út í skólana og starfi þar heilan vetur að öllum þeim verkefnum sem í starfinu felast. Hann fái umsjón með litlum hópi nemenda og taki þátt í félagsstarfi, foreldrasamstarfi, teymisvinnu og öðru því sem starfið snýst um. Hagurinn af þessu yrði augljós og afgerandi og gerði nemann mun hæfari til að ákveða framhaldið. Skólinn bæri ekki launakostnað af nemanum.


En, og þetta er mikilvægt, í staðinn fyrir að taka á sig svona verulegan hluta af uppfræðslu nemans fái viðkomandi skóli inni fyrir eldri kennara í kennaranáminu. Og það yrði hluti af reglulegri endurmenntun hvers kennara að fara í tiltekinn tíma inn í háskóla og læra hvað er nýtt – og þetta er það mikilvægasta – hafa áhrif á það sem þar er kennt. Háskólinn myndi nota komur þessara kennara til að koma á gagnvirku sambandi milli nema, eldri kennara og stofnunarinnar. Fræðilegar útektir væru gerðar á skólaþróun og raunveruleika kennarastarfsins með öðru.

Fái skólar einn til fimm kennaranema að jafnaði, ár í senn, ætti að vera auðvelt að sjá til þess að „endurmenntun“ væri markviss og mikil. Og, best af öllu, eldri kennarar miðla markvisst af reynslu sinni og þekkingu til yngri kennara, kennaranema og leggja sinn skerf til kennaramenntunar og rannsókna.

Í þessu felst að þeir sem mennta kennara græddu mest á því að hætta að blaðra við púlt og taka í staðinn upp námssamfélög þar sem hlutverk háskólakennarans er orðið að leiðbeina og leiða – í stað þess að mata.

Kennari sem ætlar aðeins að mata er úreltur. Hann hefur ekkert hlutverk í skóla framtíðar.

Sókn fyrir hverfandi sveitarfélög


Raufarhöfn er að þurrkast út. Hið sama gildir um fleiri sveitarfélög. Í öllum landsfjórðungum nema einum eru kjarnabyggðarlög með viðvarandi fólksfækkun. Þau má sjá á myndinni:


Þetta eru byggðir sem við erum að tapa. Einhverjum verður ekki bjargað úr þessu – en öðrum má vel bjarga. En til þess þarf að koma til róttæk hugarfarsbreyting. Mig langar að stinga upp á einni lausn.

Ég þekki helming þessara svæða persónulega. Hef búið þar og starfað. Þekki innviðina og fólkið og veit að öll svæðin sem ég þekki af reynslu eru meira en þess virði að þeim sé bjargað.

Byrjum að greina vandann. Í flestum tilfellum er hann sá að fólk með börn hverfur. Aldurssamsetning flestra þessara staða er flöt. Hér er eitt dæmi sem á við um flest sveitarfélögin að einhverju leyti:


Það vantar börn og fólk á virkasta skeiði. Þess í stað eru óvenju fjölmennir árgangar eldra fólks. Ekkert samfélag fæst staðið til lengdar ef þessari þróun er ekki snúið við. Margir staðanna búa einnig við einhæf atvinnuskilyrði og skort á menntunarmöguleikum. Við það hverfa úr samfélaginu hlutfallslega margar konur og eftir verða karlar sem vinna verkavinnu.

Markmiðið verður að vera að fjölga börnum og fólki á virkasta aldri 25 - 45 eða svo.

Það sem ég myndi stinga upp á að yrði gert er í stórum dráttum þetta. Það þarf að draga fram kosti þess að búa úti á landi. Þeir eru ótvíræðir og margir – og fara aðeins vaxandi með „heilbrigðari“ aldurs- og kynjasamsetningu. Þeir eru líka mismunandi eftir stöðum. Tækifæri til útivistar eru td. mismunandi eftir svæðum. Menningarstofnanir og saga er misjöfn. Mannlífið er fjölbreytt. Þannig er örugglega snilld að eiga sjókajak á Raufarhöfn og skella sér í kvöldsiglingar á meðan sá þyrfti að vera illa ónæmur fyrir fegurð mannlífsins og alheimsins sem færi ekki á kvöldin í Pollinn á Tálknafirði. Á mörgum staðanna er frábært tónlistarfólk. Það er t.d. ekki ónýtt að fara á Bach-tónleika hjá Aladár á Húsavík. Mótorkross-nördarnir gætu komist í fóstur hjá Kjartani á Klaustri og rölt með honum Ástarbrautina á kvöldin.

Nema hvað, það er ekki nóg að byggja á því sem fyrir er. Það þarf að bæta einhverju við. 

Markhópur þessar sveitarfélaga þarf að vera fólk sem ætlar sér ekki að starfa áfram í þeim atvinnugreinum sem eru jafnt og þétt að drepa þessi byggðarlög úr einsleitni. Mjög mörg störf má vinna hvar sem er. Það eina sem þarf er verulega góð nettenging og vinnuaðstaða. Ferðaþjónusta fer bara vaxandi og þessi svæði eiga þar alla möguleika. Til þess þurfa samgöngur að vera í lagi. 

En til að fólk á barneignaaldri flytji til þessara svæða þurfa skólarnir að vera framúrskarandi. Það gerist ekki nema menn þori að breyta kerfinu töluvert mikið. En með framúrskarandi skólum er mikið unnið. Fólk tekur menntun barna sinna mjög alvarlega – sérstaklega það fólk sem mest skortir á þessi svæði. Og ofan á það tekur fólk hamingju barna sinna og heilbrigði mjög alvarlega. Fámennið og náttúran býður upp á mikla möguleika.

Það sem ætti að prófa að gera við skólana á þessum svæðum er eftirfarandi:

Það ætti að leggja alla áherslu á einstaklingsmiðað nám. Henda miðlægum kennslubókum sem hannaðar eru utan um bekkjarkennslu í þéttbýli og taka upp frjálsara, skapandi nám. 

Það ætti að tryggja framúrskarandi hæft starfsfólk og borga því vel. Sveitarfélög ættu að taka eitthvað af því tóma húsnæði sem fólksfækkunin hefur skilið eftir sig og breyta í kennaraíbúðir. Íbúðirnar ættu að vera búnar húsgögnum og tækjum og vera aðlaðandi. Á hverjum stað ætti sérstaklega að huga að afþreyingu utan kennslu (siglingar, hestaferðir, fjallaferðir, róðrar...) og síðan ætti sami skólinn að starfa í nokkrum byggðakjörnum í einu. Framúrskarandi kennarar dveldu í einhvern tíma á hverjum stað og færu svo yfir á næsta stað. Það er ekki hægt að halda úti danskennara, heimilisfræði- og náttúrufræðikennara í hverju þorpi. Með þessu móti væri hægt að bjóða upp á frábæra kennslu í öllum greinum – nokkuð sem aðeins stórir þéttbýlisskólar hafa getað hingað til. Það yrði bara gert enn betur en í þéttbýlinu því nálgunin væri einstaklingsmiðuð og fámennið styrkur. Kennarar væru hvattir til að hafa fjölskyldur sem tilbúnar eru að leggja þennan lífsstíl á sig í nokkur ár í staðinn fyrir góð laun og mikla og góða reynslu.

Upplýsingatækni væri notuð markvisst og notast við 1:1 kennslufræði. Nemendur væru markvisst undirbúnir undir líf í 21. aldar samfélagi – en ekki leifar af samfélagi síðustu aldar. Kennarar gætu þess vegna búið í Ástralíu eða Síle – og starfað við skólana. 

Reynt væri að laða tímabundið til staðanna fólk með sérhæfða hæfni eða reynslu. Listamenn kæmu og héldu námskeið. Stjórnmálamenn kjördæmanna tækju þátt í samfélagsfræðikennslu (og lytu sömu stjórn kennara og presturinn á staðnum). Listamenn gætu fengið ókeypis vinnuaðstöðu og frið gegn því að leggja sitt af mörkum til skólanna og samfélagsins. Í samstarfi við háskólasetrin og þekkingarmiðstöðvar yrði lagt í mikla símenntun. Rannsóknarmiðstöð ferðaiðnaðarins kæmi að eflingu ferðaþjónustu á svæðunum o.s.frv.

Skólinn yrði samfélagsmiðstöð. Starfið þar væri opið öllu samfélaginu. Eldri borgarar kæmu í skólana og fræddu, segðu börnunum sögur eða læsu fyrir þau. Börnin kenndu þeim eldri á tölvur og tækni. Saman færu allir í ferðalög.

Ég efast ekki eitt augnablik um að svona skólakerfi yrði mjög hratt það langbesta á landinu (og þótt víðar væri leitað). Og ég efast um að það yrði á endanum mikið dýrara en þetta hefðbundna. Vissulega þyrfti Samband sveitarfélaga að styrkja innviði og koma öllu af stað – og ríkið kannski líka. Það þyrfti líka að mölva nokkra múra. En það væri algjörlega þess virði.

Bestu skólar landsins myndu skapa öflugt aðdráttarafl fyrir aldurshópana sem vantar í sveitarfélögin. Flæði fólks í gegnum þau, þar sem hver staldra í einhvern tíma skapar tengsl. Fólk heldur áfram að heimsækja staðinn og lýsir reynslu sinni. Kemur í sumarleyfi eða flyst jafnvel til frambúðar.

Það er engu að tapa að reyna.

Þessi svæði eru að deyja eins og er – og að mörgu leyti fáum við aldrei til baka það sem tapast.