Saturday, March 3, 2012

Framtíð spjaldtölva í skólastarfi.


Eftir því sem ég sé nemendur nota iPaddana meira kemst ég á þá skoðun að lyklaborðið sé ekki vandamál. Möguleikarnir til að komast hjá þeim vanda sem það kann að skapa eru óteljandi. En þar fyrir utan er þráðlaus lyklaborð alltaf möguleiki.

Miklu áhugaverðara finnst mér að nú er rithandagreining orðinn raunhæfur möguleiki, bæði á texta og t.d. jöfnur. Sjá má áhugaverð dæmi hér.




Þetta þýðir auðvitað að hægt er að smíða tól sem umbreyta handskrifuðum texta í vélritaðan á tölvuverðum hraða og með mikilli nákvæmni. Tenging bið orðalista Árnastofnunar gæti gjörbreytt skriftarkennslu. Nemandi gæti skrifað og fengið stöðuga endurgjöf fyrir hvern einasta staf sem hann skrifar. Stafir gætu litast með rauðum, gulum og grænum lit t.a.m. eftir því hversu vel þeir væru dregnir og sprottið gætu fram skriftaræfingar sem taka sérstaklega á þeim hreyfingum/stöfum sem upp á vantar.

Stafsetningarkennsla býr við svipaða möguleika.

Og stærðfræðin.



Það má gera öpp sem greina hverja línu í útreikningi og umbreyta í texta og tákn í snyrtilegri vinnubók. Í hvert skipti sem stokkið er yfir skref í útreikningi (sé lögð áhersla á nákvæma útreikninga) eða gerð villa getur komið fram villuboð. Nemandinn getur þá staldrað við og t.d. væri hægt að setja forritið þannig upp að ef hann eyðir meira en 2 mínútum stopp á dæminu eða gerir 3 gallaðar tlögur að framhaldinu þá bjóðist honum að sjá myndband með kennslu um þetta tiltekna atriði.


Ekki það, að kennsla á þessum nótum væri að mínu mati alls ekki ákjósanleg. En hún getur verið gagnleg til að þjálfa ákveðna grunnfærni. Spjaldtölvur bjóða upp á svo miklu betra nám ofan á svona kennslu.

Tengsl við hefðbundari tölvur

UTM er með til skoðunar ofsalega áhugaverðan möguleika í þróun tölvumála. Ég er á því að sá kostur sé frábær og að spjaldtölvuvæðing muni óhjákvæmlega leiða af sér slíka möguleika.

Spjaldtölvur hafa annmarka. En þær hafa ótrúlega snjalla leið til að komast hjá þeim annmörkum. Spjaldtölvan sem ég er með er 16 GB. Sjálfur á ég mörg hundruð GB af kennslumyndböndum og fræðsluefni sem ég vil geta skoðað í spjaldtölvunni. Ég vil líka geta unnið í Word, Excel og skoðað Flash.

Ég get þetta allt nú þegar.

Fjöldinn allur af öppum (og nokkur ókeypis) bjóða mér að tengja iPaddinn þráðlaust við fartölvuna. Sum eru hönnuð sérstaklega til að streyma myndböndum og tónlist þráðlaust, önnur yfirtaka tölvuna í heild sinni.

Eitt heitir LogMeIn.


Með því „logga“ ég mig inn á tölvuna mína og sé skjáinn á henni í spjaldtölvunni. Ég get opnað allt og unnið í skjölum eins og ég vil. Ég get notað fingrahreyfingar til að stækka og minnka hluta á skjánum og lært margar flýtibrellur með fingrunum.

Með þessu móti get ég horft á flash-myndbönd og leiki og unnið í forritum sem ekki eru til á spjaldtölvum.

Að vísu er tilfinningin öll ansi klaufaleg ennþá (t.d. fyrir þá sem nota flýtitakka mikið) en það eru allt smámunir.

Airplayit er app sem ég prófaði í gær. Það virkaði hnökralaust. Með því get ég horft á kvikmyndirnar á harðadisknum í tölvunni á iPaddinum í fullum gæðum og án hökts.


Bæði þessi forrit og öll álíka krefjast þess að sett sé upp forrit á „móðurtölvunni“ sem spjaldtölvan vinnur með.

En hvað þýðir þetta?

Jú, auðvitað það að möguleg framtíðarsýn tölvumála í skólum verður að endatækið skipti ekki lengur öllu máli. Að sett verði upp risastór tölvubú þar sem sérhæfðir starfsmenn sjá um tækin og uppfæra eftir þörfum.


Þessar tölvur minna á upphafsdaga tölvutækninnar þegar tölvur fylltu heil herbergi en í stað þess að vera ein tölva þá eru þetta mörg hundruð eða þúsund tölvur í eini knippi. Búið er að úthluta einstökum notendum sínu plássi, aðgangi að forritum, myndefni, tónlist, upplestri, hljóðbókum o.s.frv.

Notandinn er svo með tæki sem hefur samskipti við „móðurtölvuna“ gegnum þráðlaust net og ljósleiðara. Tækið getur verið spjaldtölva, sími eða eitthvað þar á milli.

Auk þess hefur nemdandinn öpp á tækinu sem hann getur unnið í heima eða úti þar sem ekki er netsamband – og sem hann getur unnið í ef rafmagnið fer eða netið dettur út einhvern skóladag.

Fyrst um sinn

Þetta þarf alls ekki að vera svo fjarlægur möguleiki. Sameignakerfi borgarinnar er vísir að þessu. Kerfið er til í stórum dráttum. En fyrst um sinn gætu þeir skólar sem taka upp fjartækni (mobile technology) sett upp sína eigin miðlara – og miðlað af þeim um þráðlaust net. Á þeim geta verið hljóðbækur, kvikmyndir og annað þungt efni sem nemendur mega nálgast. Netin eru rekin innan skólans og nemendur geta streymt efninu í tækin sín. Þar með erum við komin ansi langt frá gömlu sýningarvélinni sem sýndi öllum nemendum sömu myndina á sama tíma.




No comments:

Post a Comment