Friday, February 24, 2012

Upplýsingatækni kennarans 2: Endurtekningin


Endurtekningin.

Ein meginástæða þess að ég fór að halla mér að upplýsingatækni er endurtekningin. Hræðilega mikið af tíma kennarans fer í að endurtaka sömu hlutina í sífellu. Og það er líklega meginástæða þess að kennsla hefur þróast sem raun er. Námshópar margra nemenda sem allir snúa eins og horfa allir í sömu átt eða á sömu blaðsíðuna er fyrst og fremst tímasparnaðarráð. Það er tuttugu og fimm sinnum fljótlega að segja eitthvað einu sinni en að segja það tuttugu og fimm sinnum.



En jafnvel í „bestu“ bekkjum eru aldrei allir mótttækilegir í einu. Og endurtekningin er raunveruleiki kennarans. Hann kennir sama hlutinn aftur og aftur og aftur og aftur ... þar til hann annað hvort verður að færibandavélmenni eða gerir eins og ég og leitar leiða til að spara tímann.

Það sem kallað er einstaklingsmiðað nám er martröð að þessu leyti. Ég hélt ég yrði ruglaður þegar ég byrjaði að kenna í opnu kerfi og uppgötvaði mér til hryllings að frelsi nemenda til að stjórna ferðinni þýddi í raun að ég yrði spurður um sama hlutinn fimmtíu sinnum. Og það gilti um fimmtíu hluti. Brátt leið mér eins og blóðknúinni uppfléttivél þar sem ég rauk á milli nemenda og reyndi að „afgreiða“ þá eins hratt og ég gat. Fyrr eða síðar grípur maður til þess ráðs að láta „spyrja sessunaut.“ Sem er ágæt aðferð í sjálfri sér – en samt verri en að láta nemendur bara læra saman til að byrja með. Nemandi sem búinn er að ná tilteknu atriði græðir takmarkað á því að vera að eyða tíma sínum á að útskýra það fyrir öðrum.

Upplýsingatækni er enn sem komið er það eina sem ég hef fundið sem getur raunverulega stuðlað að einstaklingsmiðuðu námi. Aðall upplýsingatækninnar er að upplýsingar eru til reiðu. Hver getur kallað þær fram þegar hann þarf.

Málið við að kennarinn sé sífellt að mata nemandann á upplýsingum – eða það sem verra er hjálpa nemandanum – er að nemandinn lærir að læra ekki. Í fyrsta lagi hvetur það til þess að hann sitji óvirkur með handlegg upp í loft í hvert skipti sem eitthvað reynir á. Og í öðru lagi ýtir það undir tilfinningu nemandans að það sé vandamál kennarans að nemandinn skilji. Það er ekki óalgengt að nemendur séu verklausir meðan kennarinn sinnir öðrum og neita svo að skilja nokkurn skapaðan hlut þegar kennarinn loks kemur.

Og með fullri virðingu þá er það ekkert nám þegar kennarinn stendur yfir nemanda og kinkar kolli þegar nemandinn loks, seint og um síðir, segir: „Á ég semsagt að nota sinnum?“



Á netinu er sægur upplýsinga sem nemendur þurfa að geta nýtt sér og leitað að. Nútímamaðurinn hefur mörg ráð með að afla sér fanga. Ef maður veit ekki hvað enskt orð þýðir gúglar maður það og sér svo niðurstöður úr myndaleit. Ef maður er ekki viss um beygingu orðs í íslensku lætur maður beygingarvélina beygja hana fyrir sig. Ef maður er óviss um y eða i gúglar maður bæði og sér hvort skilar fleiri/áreiðanlegri niðurstöðum. Þurfi maður að vita hvað 34 x 39 er gúglar maður 34*39. Ef maður þarf að breyta milli eininga notar maður gúgl. Svona má halda endalaust áfram.



Nemendur geta aflað sér upplýsinga á mun skilvirkari hátt með því að hafa greiðari aðgang að tölvum en kennara. Og þótt það sé fljótlegra að láta segja sér svörin en að leita þeirra sjálfur þá hefur slíkt nám afar takmarkaðan tilgang.



Kennarar geta líka sett efni inn á netið og haft það þar til reiðu. Síðan ég setti málfræðina hjá 8. bekk inn sem myndbönd á Youtube hef ég ekki fengið eina einustu spurningu um málfræðilegt atriði frá nemanda sem er að leysa málfræðiverkefni. Menn horfa bara aftur á viðkomandi myndband. Ef það klikkar biðja þeir sjálfir nemandann á næsta borði að útskýra fyrir sér.



Smátt og smátt verður nemandinn fær um að bjarga sér sjálfur og tekur yfir þennan hluta sem hefur verið mjög umfangsmikill. Skyndilega hefur kennarinn heilmikinn tíma sem hann hafði ekki áður. Og við þann tíma má gera það sem maður vill. Semja námsefni. Taka litla hópa í innlagnir. Auka undirbúning  (ef kennarar starfa í teymum). Hafa hópvinnu. Fara út. Vinna verklegt. Skapa.

Upplýsingatækni gerir mönnum kleift að hafa 25 nemendur á 25 mismunandi stöðum í einu. Og ef skólinn notar t.d. Feisbúkk til upplýsingamiðlunar geta m.a.s. allir þessir 25 verið að spjalla saman á meðan. Kennari getur byrjað og lokið kennslustund með hópskilaboðum. Nemendur geta sent spurningar á FB eða sett fyrirspurnir á vegg sem aðrir nemendur svara.


Og trúið mér, það er mun auðveldara að fylgjast með því hvort nemandi er að skila þeirri vinnu sem hann á að skila en að fylgjast með því hvort hann heyrir það sem verið er að segja við hann. Og ef hann skilar vinnunni og hún er í samræmi við þarfir hans og getu, hvað er þá að því að hann skelli sér af og til í Angry Birds eða Farmville?



Gæti verið að ein af ástæðum þess hve illa framhaldsskólanemum og háskólanemum gengur að aga  sig til að nota kennslustundir sé sú að þeir hafi ekki fengið að læra að samþætta tölvunotkun og nám? Að þeir hafi tamið sér netnotkun sem er á skjön við þarfir lærandi og vinnandi fólks?

Eða að kennarar eru enn að sóa tíma þeirra í gamaldags kennslu?

Heldur einhver að hægt sé að aðskilja nám og tölvunotkun mikið lengur?

Ekki ég. Meira að segja lítil börn eiga að læra að nota upplýsingatækni og njóta hennar. Það á ekki að halda þeim frá tölvum. Þær eiga að verða sjálfsagður hlutur. Og það á að horfa á námsframvind í stað þess að stýra hverri mínútu.

No comments:

Post a Comment