Friday, February 24, 2012

Um íslenskukennslu





Nú liggja í meltingarvegi „kennaraháskólans“ kennarar af fyrstu kynslóð nýrra og endurbættra kennara – sem hafa fimm ára nám að baki sér þegar þeir hefja störf. Eða þeir eiga að gera það. Orðið á kennarastofunni er að vandræðalega stór hluti þeirra sem lokið hafa þrem árum hyggist klára síðustu tvö árin í einhverju allt öðru – og ljúka meistaranámi (sem er skilyrði kennsluréttinda hér eftir) í einhverju ánægjulegra eða praktískara en þeir hafa nú eytt þremur árum í.

Það er svosem ekki undarlegt að við þessar aðstæður komi fram fagstéttir sem vilja nýta rýmið sem tvö auka ár gefa til að skara eld að sinni köku. Nú vilja til dæmis íslenskumenn að kennurum sé kennd meiri íslenska.

Ef ég væri valdameiri en ég er þá myndi ég gerbreyta kennaranáminu og taka upp a.m.k. heilt skólaár þar sem kennaranemar starfa við kennslu með stuðningi. Þeir fengju það sáralítið launað – og í staðinn fengju skólar sem taka á móti þeim að senda sitt fólk í endurmenntun og teymisvinnu inni í háskólanum. Fólkið með reynsluna færi eina og eina viku inn í háskólann og aflaði sér þekkingar á því sem þar er nýtt og skilaði þangað inn því sem er að gerast úti í skólunum. Og skólinn gæti hæglega sleppt mönnum til verkanna vegna þess að eyðan sem þeir skilja eftir sig yrði ríflega mönnuð með kennaranemum.

En ég er ekki valdameiri en svo að ég verð að láta nægja að básúna þetta hér. Og ég er allt of ungur og frjór og lífsglaður og hégómlítill til að dúndra mér í doktorsnám til þess eins að enda sem kennari í háskólanum. Það eru ömurleg örlög.

En að því sögðu þá held ég að það megi vissulega bæta íslenskukennslu. En mikið óskaplega vildi ég að íslenskir kennarar hefðu hugrekki til að rífa greinina upp úr þeim hjólförum að verða einna helst þeim að gagni sem vilja geta stafsett sæmilega rétt það sem þeir hafa eftir öðrum. Því hin stóra meinsemd íslenskukennslunnar er að það skortir upp á að gera nemendur færa um að skilja, skapa og tjá. Allt annað er hjóm.

Eina leiðin til að viðhalda tungumáli er stanslaus sköpun. Málið þarf að spretta upp úr sverðinum hvar sem litið er – og ákveðin órækt er ekki aðeins æskileg, heldur bráðnauðsynleg. Tungumál varðveitast ekki öðruvísi en með sífelldri lifun. Afskorin blóm sölna fyrr eða seinna.

Það er freistandi að enda þetta á tilvitnun í virðulega suðurþingeyska móðurmálskennara sem gátu varla á heilum sér tekið þegar kommúnistarnir í Reykjavík fóru að dæla úrkynjuðu skrípamálfari inn á íslensk heimili undir yfirskyni fagurbókmennta. Og ég ætla að láta eftir freistingunni.

Þeir skrifuðu að sjálfsögðu bréf til að kvarta en uppskáru ekkert nema skæting frá ungum þýðanda sem annaðhvort kunni ekki eða vildi ekki tala íslensku alminlega og eins og reglugerðir kváðu á um. Þeir skrifuðu því annað bréf og sögðu þar um ódáminn:

Framkoma hans í andsvörum í Tímariti Máls og menningar, – þar sem hann ræðst eins og dóni að kennurum, og viðurkennir í engu ávirðingar sínar – bendir til þess að honum sé annaðhvort ekki annt um móðurmál sitt, eða hann sé haldinn rithöfundarhroka, sem starblindi hann í sjálfs sín sökum.

Hvort heldur sem er, sýnir, að hann er viðsjárverður maður í íslenzkum bókmenntum.


Bölvað gerpið.

Og svo kunni hann ekki að skammast sín. Lét sér nægja að segja að enginn verði rithöfundur fyrr en hann sé vaxinn út úr þeirri hugmynd að til séu orðskrípi.

Og undir slíku gat virðulegt Kennarafélag S.–Þing. ekki setið. Það var enda ljóst að ef fleiri tækju upp þennan „orðskrípa- og sóðarithátt [...] væri okkar göfugu tungu geigvæn hætta búin.“

Svo fékk bara drulludelinn Nóbelinn.

Hve margir HKL ætli hafi verið kæfðir í fæðingu af íslenskukennurum þessa lands?

No comments:

Post a Comment