Þann 1. maí síðastliðinn skrifaði ég (að mínu mati nokkuð gáfulega) grein hérna á Maurildin um gallana á samkeppnisþjóðfélaginu. Í lok textans strengdi ég heit: að ganga í lið með samkennurum mínum og reyna að gera vötnin umhverfis skólann okkar að kennslusvæði með því að taka báta í notkun.
Stundum er skólinn minn, Norðlingaskóli, besti skóli í heimi. Ég byrjaði á að tala við íþrótta- og útilífskennara og hann greip hugmyndina á lofti. Áður en ég vissi af var kominn nokkra manna kjarni sem vildi gjarnan gera þetta að veruleika. Auk þess tók skólinn í haust við frístundastarfinu og þar vann náungi sem var tengdur við Siglunes og ÍTR sem svo sannarlega vildi hjálpa okkur að gefa verkefninu vængi. Smátt og smátt fann maður hvernig hin mikla þekking og reynsla sem býr í borgarkefinu dróst saman í einn punkt og um daginn pöntuðum við flutningabíl og fengum báta lánaða til að kanna aðstæður. Allir starfsmenn skólans voru velkomnir með og nokkrir unglingar sem voru á leið heim eftir skóladaginn sáu hvað við vorum að gera og fengu að bætast í hópinn. Allt gerðist þetta áreynslu- og átakslaust. Það er einhvernveginn eðlilegasti hlutur í heimi að þeir sem svipað eru þenkjandi takist í hendur og láti hlutina gerast.
Við klárum að skipuleggja þetta á þessari önn og vonandi verður vatnakennsla orðinn fastur þáttur í skólastarfinu strax á þeirri næstu.
Allt vegna þess að kerfið virkar sem heild og blæs vindi í segl þeirra sem sýna frumkvæði. Hvatinn kemur innanfrá.
Ef þetta tekst vel og siglingakennsla verður virkur þáttur í starfinu kemur ekki annað til grein af okkar hálfu en að galopna faðminn fyrir þeim skólum sem vilja koma og vera með. Við munum hafa þekkingu og kennsluefni aðgengilegt og ókeypis. Kennarar sem vilja brjótast út úr kennslubókinni og vera með þurfa ekki annað en að setja sig í samband við okkur.
Við erum öll í sama liði.
Þannig á skóli að virka.
No comments:
Post a Comment