Rétt notkun upplýsingatækni í kennslu skilar margvíslegum ávinningi. Kennslan verður fjölbreyttari og markvissari. Auðveldara er að leyfa nemendum að læra á eigin forsendum og hraða. Við getum frelsað okkur frá skólakerfi iðnbyltingarinnar.
Ég ætla nú að ræða um tvennt sem við getum talað um sem forsendur þess að tæknivæðing skólans geti orðið og mögulegar afleiðingar þess að hún takist vel.
Fyrst verður að nefna tæknihræðslu. Fjölmargir kennarar segjast einfaldlega vera hræddir við tæknina og fákunnandi þegar kemur að beitingu hennar. Og það þarf ekki að koma svo mjög á óvart þegar haft er í huga að kennarastéttin er gömul og illa endurnýjuð. Orðið „tæknihræðsla“ er einfaldlega yfirvarp yfir tæknifákunnáttu. Og í skólakerfi nútímans og framtíðarinnar er fákunnátta um tækni fötlun. Hlutverk kennarans er að undirbúa nemandann undir líf og starf í tæknivæddu samfélagi. Tæknifákunnáttan er aðeins ein tegund ólæsis – og ólæsir kennarar eru erfiður biti að kyngja.
En tækniþekking er ekki allt. Reyndur kennari sem enn er fastur á myndvarpastiginu er á alla máta betri kennari en reynslulaust tæknigúru. Tæknin hefur fyrst áhrif á umbúðirnar, síðan innihaldið. Innihald verður ekki til með flottum umbúðum.
Vandamálið hér – og eitt af grundvallarvandamálum skólakerfisins – er að kennarastarfið er á Íslandi meira í ætt við þjóðveldisöld en nútímann. Kennarar eru óeðlilega og óréttlætanlega einangraðir. Einn kennari, einn námshópur, ein kennslustund.
Af hverju ættu ekki allir að geta svarað í einu? |
Lausnin er teymisvinna. Í stað þess að 4 kennarar sinni fjórum námshópum með 25 börnum geta fjórir kennarar sinnt einum 100 manna hópi. Sem síðan er hægt að skipta eftir hentugleikum og þvert á yfirborðskennda mælikvarða eins og almanaksár fæðingar. Þessir kennarar geta haft samráð um vinnuna sína og einn lagt til tækniþekkingu og annar innihald.
Aðeins með því að kennarar vinni saman verður hægt að nota upplýsingatækni af viti í skólum. Því eðli málsins samkvæmt býr mest þekking á innihaldinu hjá öðru fólki en hefur mesta þekkingu á umbúðunum. Og þegar svo er kemur einangrun því til leiðar að kennsla annars ónýtist vegna slaks innihalds – en hins vegna slakra umbúða.
Kennarar í upphafi tæknialdar verða að vinna saman. Öðru vísi er ekki hægt að hnika þessu skólakerfi áfram.
Þetta var fyrri forsendan. Sú síðari er traust og velvild.
Það segir sig sjálft að þegar þú færð nemanda tæki eins og snjallsíma, spjaldtölvu eða bara fartölvu þá lyftir þú möguleikum hans á að missa þráðinn upp í æðra veldi. Nemandi sem á bágt með að einbeita sér hlýtur að eiga erfitt með að standast freistinguna þegar honum er færð heil veröld til að leika sér að. Margir bregðast við þessu með því að setja eftirlitsbúnað í tölvur (t.d. til að skoða og stjórna tölvum nemenda meðan þeir vinna) eða með því að loka á aðgang að öllu nema því sem nemandinn á að vera að gera.
Mín reynsla er að hvorttveggja er óþarft. En til að svo sé þarf tvennt að koma til. Í fyrsta lagi verður að liggja fyrir raunhæf áætlun um vinnu nemandans sem skoðuð er mjög reglulega (vikulega eða oftar). Og í öðru lagi þarf staðblærinn að byggjast á trausti og velvild.
En ég má til með að nefna að slæm reynsla margra kennara af því að hleypa nemendum í tölvur held ég sé fyrst og fremst til komin af því að nemandinn er vanur að hafa sáralítið um nám sitt að segja. Hann ræður engu um hvert stefnt er og megnið af tímanum veit hann ekki einu sinni hvað hann er að læra eða hvað er handan við hornið. Það er ekki við því að búast að nemandi sem aldrei er með í ráðum um nám sitt rati þá leið sem kennarinn vill að hann fari sé leyst af honum ólin.
Það er ekkert við eðli málsins sem gerir það að verkum að valdaflutningur frá kennara til nemanda hafi slæmar afleiðingar í för með sér. Nemendur sem fá völd og er treyst til valda eru nákvæmlega eins og allt annað fólk í sömu stöðu. Stundum reka þeir sig á en oftar verður valdeflingin til þess að þeir njóta sín betur. Kennari þarf ekki annað en að koma fram við nemendur sína af vinsemd og virðingu til að nemendur sýni það sama til baka. Valdastríð milli nemenda og kennara eru vond stríð því kennarinn hefur allan liðsaukann og nemandinn situr uppi með allan stríðsskaðann. Fæstir nemendur batna við það að vera beittir hörðu eða vaktaðir eða agaðir til. Flestir nemendur sýna verulega framför við það að vera sýnd hlýja.
Ég hef séð hörðustu gelgjur breytast í yndislegasta fólk við jafn ómerkilegan hlut eins og að vera boðið með inn á kaffistofu kennara í kökusneið og mjólkurglas. Ég hef séð nemendur sem búið er að gefast upp á og afskrifa sem forherta krimma breytast í ljúflinga við það eitt að talað er við þá eins og menn. Ég hef aldrei séð neinn bættan með hörku eða eftirliti.
Harðstjórar eiga enn minna erindi í kennslu en tæknifatlaðir og ólæsir. Samt er enginn skortur af þeim. Og harðstjórn er oft mistekin fyrir hæfni.
Að því sögðu á kennarinn ekki að vera lufsa. Hann á ekki að láta vaða yfir sig. Og kennari sem sífellt er einn með sama hópnum á mjög erfitt með að viðhalda því jákvæða uppbyggilega andrúmslofti sem nauðsynlegt er til að hægt sé að fara að gera hlutina alminlega. Einangraður kennari er dálítið eins og þreytt, einstætt foreldri. Það er vissulega oft traust og sterk tengsl til staðar en stundum þarf maður breik. Kennarar þurfa að geta bakkað hverja aðra upp og samræmt störf sín þannig að þeir hafi væntumþykjuna og virðinguna í fyrirrúmi. Og kennari sem illa er upplagður eða brestur þrek til að díla við eitthvað á því augnabliki sem þarf getur þá tekið sér hvíld og aðrir hlaupið inn í staðinn. Nemandi sem þarf stuðning hefur um nokkra kennara að velja.
Meðan komið er vel fram við börn og þau efld til að ráða sem mestu sjálf og verk þeirra dæmd en ekki hver einasta mínúta hverrar einustu stundar – þá þarf ekki að hafa áhyggjur af flóttaleiðum inn í sýndarveruleika upplýsingatækninnar. Þvert á móti getur tæknin einmitt orðið til þess að nemandinn þarf sjaldnar að sóna út. Því sá sem maður missti inn í tölvu lærir ekkert meira við það að missa tölvuna. Hann hverfur bara út um gluggann eða inn í hausinn á sjálfum sér í staðinn.
Það að nemendur myndu misnota tæknina, sækja einhvern viðbjóð eða skemma tækin og tólin – er verulega ofmetið. Nemendur gera helst svoleiðis ef þeir upplifa sig í einhverju reipitogi við þá sem skammta þeim tækin. Þeim finnst voða fyndið að snúa skjánum eða fikta í einhverjum stillingum sem gera kennarann alveg ringlaðan. En nemendur hafa alla tíð krotað dónaskap innan á baðhurðir og á skólaborð án þess að nokkrum hafi dottið í hug að æskilegt væri að skammta notkun blýanta. Þegar nemandi vinnur spjöll á tækninni er það merki um að eitthvað sé bogið við samband hans við tæknina og kennarana. Þar sem sambandið er heilbrigt eru nemendur hjálpsamir og úrræðagóðir – ekki undirförlir og svikulir. Og heilbrigt samband í námshópum er svo mikilvægt markmið að enginn kennari ætti láta þess ófreistað að byggja það upp. Það er auðveldara en maður heldur.
En þar fyrir utan þá er t.d. iPad þeirrar náttúru gæddur að möguleikar nemandans til að fikta eru verulega takmarkaðir. Kennarinn geymir lykilorðið sem nemandinn þarf til að breyta hlutum. Ef einhver sækir í einhvern dónaskap á netinu dílar maður við það eins og gaurinn sem hangir í kynfræðslubókinni á bókasafninu. Maður kennir honum að sumt á stundum við og stundum ekki.
Tilgangur upplýsingatækni er ekki að fikta í flottum og dýrum græjum og finna til sín. Tilgangurinn er að gera starfið skilvirkara og fjölbreyttara. Brjóta upp áratugagamla stöðnun sem þrátt fyri góðan vilja hefur verið seinyfirunnin. Ritað mál færði vald og tækifæri upp í hendurnar á venjulegu fólki frá sérfræðingunum sem áður skömmtuðu þekkinguna. Upplýsingatæknin er næsta skref. Hún gerir allt auðveldara ef henni er rétt beitt. Og kennarar ættu að fagna þessu sérstaklega vegna þess að í fyrsta skipti verður virkilega raunhæft að nota tímann til uppbyggilegra hluta.
Það tekur innan við sekúndu að leita að orði í leitarvél. Það getur tekið þrjátíu sinnum lengri tíma að fletta því upp. Það tæki óratíma að leita í bók að öllum tilvikum þar sem ákveðið nafn eða orð kemur fyrir. Það tekur enga stund með notkun tækninnar. Það þarf ekki lengur að skammta nemendum efni og halda aftur af þeim. Það verður ekkert erfiðara að sinna 30 nemendum á 30 mismunandi stöðum en öllum á sama stað.
Það eru ekki allir á sama „stað“ þótt þeir deili sama rými |
Ég þarf ekki einu sinni að telja upp alla möguleikana þeir eru augljósir.
En það sem er augljósast eru leiðirnar til að brúa bilið milli tækninnar og veruleikans. Nemendur geta málað, smíðað, byggt – og allan tímann verið í sambandi við kennarann. Sjáið bara möguleikana eins og í notkun iPad eða iPhone og Locatify-appsins (sem er íslenskt). Þar nýtist staðsetningarbúnaður tækisins þannig að nemendur geta þvælst um umhverfi skólans eða út um allt í skólaferðalögum og tækið vísar þeim á tiltekna staði og segir þeim frá þeim eða felur þeim verkefni.
Smátt og smátt geta nemendur ekki aðeins unnið verkefnin sín fjölbreyttari hátt heldur líka hraðar. Og þá er lag til að gera það sem aldrei hefur unnist tími til: að sinna öllum vanræktu hliðunum á námskránni. Að fara út. Gera eitthvað með höndunum. Syngja. Spila á hljóðfæri. Fara í fjós eða bíó. Víkka út sjóndeildarhringinn og reynsluheiminn. Máta námsefnið við veruleikann.
Tækninni er nefnilega ekki stefnt til höfuðs fjölbreyttri, lifandi kennslu. Henni er stefnt til höfuðs einstrengingslegu, bókamiðuðu, ofstöðluðu iðnbyltingarnámi.
Er eitthvað því til fyristöðu að nemendur fái svona aðstöðu? |
Við fórnum engu sem er þess vert að bjarga með því að stíga skrefið.
No comments:
Post a Comment