Friday, February 24, 2012
Í dag er ég glaður...
Stórkostlegri Harry Potter smiðju er lokið í Norðlingaskóla. Hún er komin á harða diska sögunnar á fleiri en einn hátt.
Unglingar eru stórkostlega vanmetnar auðlindir. Ég er sannfærður um að þegar unglingar rekast á veggi er það oftar en ekki veggur sem einhver fullorðinn reisti þar sem engin sérstök þörf er fyrir vegg.
Mig langar að skora á alla kennara þarna úti að íhuga vandlega nauðsyn þess að rjúfa einangrun einstakra kennara og vinna saman í hópum. Að leggja niður drottnandi samband nemanda og kennara og efla nemendur til frelsis. Að hætta að skamma unglinga til að halda þeim á réttri leið – og hvetja þegar vel gengur. Láta nægja að stilla upp stöðu sem auðveldar sigra.
Ef einhver er að kenna unglingum sem þykir ekki beinlínis vænt um nemendur sína (í alvöru, ekki á yfirborðskenndan skyldubundinn hátt) og ekki þykir mikið til þeirra koma – þá er hann ekki í réttu starfi.
Það eru ekki alltaf jólin. Auðvitað ekki. En ef aðeins brot af þeim tíma sem fer í að byggja veggi færi í að gera eitthvað uppbyggilegt og gott – þá myndu skólar skapa hamingjusamar, sjálfsöruggar, heiðarlegar og kærleiksríkar manneskjur í miklu meiri mæli.
Allt annað eru aukaatriði.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment